139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka kærlega fyrir að hafa tækifæri til þess að ræða þessi mál. Ég var að horfa á Al Jazeera í gærkvöldi og hlusta á símtal við fólk í borginni Bengasí þar sem það kallaði eftir því að sett yrði á loftferðabann. Ég sá í morgun að það stefnir í fjöldamorð í Bengasí á næstu dögum, innan 36 tíma. Hvað gerir maður þá ef maður er friðarsinni? Ég verð að viðurkenna að ég er í mikilli flækju með þetta mál, mér finnst þetta ekki sambærilegt við Írak, mér finnst það sem er að gerast núna í Norður-Afríku, Líbíu og Bahír og fleiri löndum, vera allt annars eðlis. Þetta snýst ekki um trúarbragðastríð, heldur almenna borgara sem eru búnir að fá nóg af kúguninni. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór að það sé mjög mikilvægt að þetta fari undir hatt Sameinuðu þjóðanna, hvaða aðgerðir sem þær þurfa að vera. Ég verð að segja að ég styð loftferðabann eftir að hafa hlustað á almenning í Líbíu kalla eftir aðgerðum.

Þá megum við líka beina sjónum okkar að öðrum löndum eins og Bahír. Ég horfði á myndband rétt í þessu sem er á netinu þar sem vopnlaus maður var skotinn beint í hausinn af lögreglunni frá Sádi-Arabíu. Ég krefst þess að Íslendingar skori á aðra á alþjóðavettvangi að slíta öllum stjórnmálasamskiptum við Sádi-Arabíu sem sendi herinn sinn inn í Bahír til að slátra almennum borgurum. Ef við höfum stjórnmálasamband við þessa þjóð eigum við skilyrðislaust bæði að slíta því og (Forseti hringir.) hvetja Bandaríkjamenn og Evrópusambandið til að slíta samstundis öllum samskiptum við Sádi-Araba.