139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru grafalvarlegir atburðir sem gerast í Líbíu og reyndar í fleiri löndum Miðausturlanda og Norður-Afríku. Ég fagna þeim svörum sem hæstv. ráðherra gaf áðan um skoðun sína á þessum málum. Það er ákaflega mikilvægt að við Íslendingar höfum sjálfstæða rödd og sjálfstæða stefnu en á síðustu vikum, mánuðum og missirum hafa landsmenn, sem og reyndar hið margumtalaða alþjóðasamfélag, velt fyrir sér hver utanríkisstefna Íslands sé og hver fari með hana. Er það forsetinn sem beinir sjónum sínum fyrst og fremst bæði viðskiptalega og pólitískt til Asíu, Kína og Indlands, eða er það hæstv. utanríkisráðherra og Samfylkingin sem vill inn í viðskiptablokka- og tollabandalag Evrópusambandsins? Eða ætlum við að hafa sjálfstæða skoðun, utanríkisstefnu sem er byggð á hinum sögulegu samskiptum vestrænna ríkja og samskiptum og samvinnu okkar ekki síst við Norðurlönd?

Það er því ákaflega mikilvægt að sú rödd sem við tölum heyrist í alþjóðasamfélaginu, við munum auðvitað ekki ráða þar lögum og lofum og kannski hvorki hafa úrslitaáhrif á það hvort einræðisherrar ráðast gegn þjóðum sínum né heldur hvort gripið verði til vopna, en rödd okkar skiptir máli. Hún á að vera sjálfstæð og hún á að koma frá okkur sjálfum.

Á síðustu vikum hefur hinn oft hugumstóri orðhákur, hæstv. utanríkisráðherra, gagnrýnt, jafnvel fordæmt meðferð einræðisstjórnanna í Norður-Afríku og Miðausturlöndum héðan úr ræðustól og stutt lýðræðis- og mannréttindabaráttu fólksins í þeim löndum, oft með tilvísun til þess að það geri menn líka í Evrópu og Evrópusambandinu. Áður fyrr gagnrýndu vinstri menn og margir hverjir núverandi ráðherrar harðlega utanríkisstefnu Íslands og sögðu hana vera hangandi aftan í Bandaríkjamönnum. Ég hef velt því fyrir mér upp á síðkastið hvort við séum búin að finna einhvern nýjan til þess að hanga aftan í, þ.e. Evrópusambandið, eða hvort við þorum að hafa sjálfstæða stefnu sem við erum tilbúin að berjast fyrir hvar sem er og hvenær sem er fyrir framan alþjóðasamfélagið, og kannski verður (Forseti hringir.) raunin sú að þá verði á okkur hlustað.