139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ekki mun ég geta svarað öllum þeim spurningum sem til mín var varpað hérna áðan. Ég vil byrja á því að segja að ég tel að það sé algjörlega rangt hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að jafna Líbíu við Írak. Það er ekki verið að stráfella fólk vopnlaust á jörðu niðri með loftárásum, (Gripið fram í.) eða var ekki í Írak eins og hefur verið að gerast núna í Líbíu. Ég ætla að minna hv. þingmann á það (Gripið fram í: Lýðræðið …) að tilefni hans flokks til þess að styðja innrásina í Írak var að uppræta gereyðingarvopn. Nú hefur komið í ljós í rannsókn breska þingsins að það voru engin gereyðingarvopn og það hefur líka komið fram (Gripið fram í.) að það var uppspuni eins manns, það liggur (Gripið fram í.) m.a.s. fyrir að það er eins og það hafi hreinlega allt saman verið fabrikkerað.

Ég talaði algjörlega skýrt, öfugt við hv. þingmann talaði ég algjörlega skýrt hérna áðan. Ég sagði að miðað við þær aðstæður sem kynnu að skapast teldi ég að ekki þyrfti að bíða eftir því að það skapaðist eining í öryggisráðinu um þetta (Gripið fram í.) ef það væri verið að drepa fólk á jörðu niðri, eins og mér heyrist hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vera mér sammála um. En það er greinilegt að hv. þm. Bjarni Benediktsson virðist hafa einhverja aðra skoðun á þessu.

Öfugt við Írak er það líka þannig að ég hef sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar greint þinginu frá afstöðu minni, ég gerði það hér fyrir hálfum mánuði og aftur áðan þannig að þingið veit hvað ég er að hugsa í þessu. Við höfum samráð, ég fer ekki lengra en þingið leyfir mér, það er ekkert flóknara en það.

Ég tek svo undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Ég er einmitt þeirrar skoðunar eins og danski utanríkisráðherrann að það séu ákveðnar heimildir sem gera það að verkum að hægt sé að bregðast við. Það sem ég óttast er að þegar Gaddafí er búinn að yfirtaka Líbíu hefjist hefndirnar. Ég óttast líka að það að hann skuli halda velli, eins og allt bendir til, reynist mikill móralskur styrkur fyrir aðra einræðisherra sem menn eru að berjast gegn.