139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

norrænt samstarf 2010.

595. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svörin svo langt sem þau ná.

Ef ég man rétt stóð í einni af skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Norðurlöndin ætluðu að veita lán til Íslands í tengslum við það starf með því skilyrði að Icesave yrði samþykkt. Það var náttúrlega þrýstingur á að Íslendingar borguðu eitthvað sem þeir áttu ekki að borga og eiga ekki að borga vegna þess að Noregur og Svíþjóð, sem ætluðu að veita þessa aðstoð, höfðu miklu meiri hagsmuni af því að hafa Breta góða í heiminum en Íslendinga. Það eru miklu stærri hagsmunir fyrir þessi lönd að Bretar séu vinsamlegir og góðir. Á þessu dæmi öllu saman lærði ég að hægt er að tala um vini og svoleiðis þegar um er að ræða persónur en ekki þjóðir.

Tvær þjóðir veittu okkur lán án skilyrða, Pólverjar og Færeyingar. Þeir settu engin skilyrði og voru ekkert að reyna að kúga okkur. (Gripið fram í.) Þeir eru þjóð, já.

Ég er ánægður að heyra um lyfjasamstarfið. Það sem mestu máli skiptir er lyfjaeftirlitið, þ.e. að lyf séu tékkuð inn í einhverju landi og sagt að þau séu í lagi. Sama prófið er í hverju einasta landi í Evrópusambandinu. Sama lyfið fer aftur og aftur í gegnum þetta próf í öllum þessum löndum og það kostar óhemjufé. Lyfjaeftirlitið verður óhemjudýrt og það er þetta sem reynt var að samræma.

Svo bíð ég náttúrlega eftir að heyra hvort hv. þingmaður, forseti Norðurlandaráðs, hafi rætt það á þeim vettvangi að Norðurlöndin stofnuðu einn allsherjar innlánstryggingarsjóð sem tryggði allar innstæður á Norðurlöndum og væri jafnframt með ígriparétt í (Forseti hringir.) starfsemi innlánstrygginga.