139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

norrænt samstarf 2010.

595. mál
[13:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held að lyfjaeftirlitið sé enn eitt spennandi sviðið til að auka samstarfið á. En það er ágætt að þingmaðurinn rifjar upp þær spekúlasjónir sem voru um meinta afstöðu Norðurlandanna til lánveitinga til Íslands og ágætt að þessar samsæriskenningar séu rifjaðar upp núna vegna þess að þróun málsins hefur sýnt að lánin fengum við þó að deilan væri óleyst. Við fengum þau vegna þess að þetta eru þær vinaþjóðir sem við getum treyst á og ég held að Pólverjar hafi raunar verið með alveg sömu fyrirvara og aðrir í þessum efnum.

Hv. þingmaður þekkir greiðsluerfiðleika og hann veit sem er að það er eðlilegt sjónarmið þegar menn ætla að lána fjármuni inn í greiðsluerfiðleika að þeir hvetji til þess að óvissu (Gripið fram í.) og ágreiningi um málefni þess sem er í greiðsluerfiðleikum sé eytt þannig að lánsfjáraðstoðin sem veitt er dugi til að klára málið. Það held ég að allir þekki sem hafa þurft að lána fjármagn inn í greiðsluerfiðleika og sé eðlilegt.

Hvað varðar sameiginlegan innlánstryggingarsjóð hefur sú umræða ekki verið uppi. Ég vísaði til samstarfs Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, sem auðvitað hafa talsverð áhrif á þetta fjármála- og efnahagssvæði vegna þess að norrænu bankarnir starfa talsvert í Eystrasaltsríkjunum, um fjármálastöðugleika og fylgst sé með þróun á svæðinu og þar með í einstökum ríkjum. Þá geta þjóðirnar í sameiningu hlutast til um eða bent á ef menn telja að eitthvað sé að fara úrskeiðis í einu af þessum löndum vegna þess að það muni hafa áhrif á önnur. Ég held að það hefði getað verið gott fyrir okkur að hafa (Forseti hringir.) slíkt samstarf í aðdraganda hrunsins, það hefði getað forðað okkur frá ýmsu.