139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

617. mál
[13:31]
Horfa

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ragnheiður E. Árnadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Margrét Tryggvadóttir.

Í tillögugreininni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að láta Lagastofnun Háskóla Íslands gera hlutlaust og aðgengilegt kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður haldin 9. apríl 2011 og senda það öllum heimilum í landinu samhliða sérprentun laganna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Kostnaður við kynningu þessa greiðist úr ríkissjóði.“

Það er skemmst um þetta mál að segja að samkynja þingsályktunartillaga lá hér fyrir frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Það varð hins vegar að samkomulagi á milli þingflokksformanna á fundi í gær að flytja málið með þessum hætti og stuðla þannig að því að hlutlaust og aðgengilegt kynningarefni um samningana bærist inn á hvert heimili í landinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl nk. og um það mun vera samkomulag á milli þingflokkanna.