139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

norrænt samstarf 2010.

595. mál
[13:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka til máls um skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf á síðasta ári. Sú er hér stendur er fulltrúi Framsóknarflokksins í Íslandsdeildinni. Ég vil fyrst þakka Lárusi Valgarðssyni, starfsmanni Íslandsdeildar, fyrir að hafa haldið utan um þann texta sem fram kemur í skýrslunni; þetta er nokkuð ítarleg skýrsla yfir starfið í fyrra.

Í upphafi ræðu minnar vil ég aðeins tala almennt um Norðurlandaráðið og hvað það skiptir okkur miklu máli að vera í norrænu samstarfi. Það er miklu mikilvægara en margir gera sér grein fyrir, alveg gríðarlega mikilvægt. Það er mitt mat að ef við hefðum ekki verið í norrænu samstarfi í öll þessi ár — við höfum verið í norrænu samstarfi í um áratugaskeið, Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 — væri öðruvísi umhorfs hér í samfélaginu. Þetta samstarf byggist bæði á samstarfi stjórnmálamanna, sérstaklega í gegnum Norðurlandaráð, og líka á mjög víðtæku samstarfi embættismanna og öflugu samstarfi grasrótarsamtaka og alls konar félagasamtaka. Við eigum því í mjög nánu og djúpu samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar sem hefur styrkt samfélagið hér á landi. Vegna alls þessa samstarfs eru Norðurlöndin að vissu leyti mjög lík, búa við líkt lagaumhverfi og velferðarkerfi.

Norðurlandaráð hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. 87 þingmenn sitja í ráðinu, þar af eru sjö Íslendingar. Á sínum tíma byggðist samstarfið aðallega á landshugsun, þ.e. hvert land vildi koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það er gjörbreytt í dag. Nú eru landsdeildirnar ekki aðallega í því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, auðvitað gera þær það að vissu leyti, heldur byggist samstarfið mest upp á flokkahópum. Pólitískur drifkraftur drífur starfið áfram. Flokkahóparnir leggja fram flestar tillögurnar, þeir tala sig saman varðandi atkvæðagreiðslur o.s.frv. Það eru því ekki þessar landsdeildir sem halda utan um starfið heldur aðallega flokkahóparnir. Norðurlandaráð vinnur á svipuðum nótum má segja og Evrópuþingið. Þar eru flokkahópar og þó að þingmenn komi frá mörgum löndum eru það flokkahóparnir, stjórnmálahugsjónirnar, sem drífa starfið áfram.

Í Norðurlandaráði eru fjórir flokkahópar. Það eru jafnaðarmenn, miðjumenn, sem sú er hér stendur tilheyrir, það eru hægri menn og fjórði flokkahópurinn er skipaður vinstri sósíalistum og grænum. Þessir flokkahópar móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndirnar. Það eru því flokkahóparnir sem ákveða í hvaða nefndir þingmennirnir fara þó að landsdeildirnar reyni líka að hafa áhrif á það og reyni þá að dreifa þingmönnum viðkomandi lands á sem flestar nefndir svo að hvert land geti fengið upplýsingar um norræna samstarfið.

Starfið fer fram í fimm fagnefndum. Það er svolítið svipað þjóðþingunum. Það er mennta- og menningarmálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, borgara- og neytendanefnd og svo velferðarnefnd þar sem sú er hér stendur er formaður og eini Íslendingurinn sem gegnir formennsku um þessar mundir í nefnd. Ég tel að það sé mikilvægt að við Íslendingar sækjumst eftir því að veita einhverri nefnd forstöðu hverju sinni. Það kom í okkar hlut núna og undanfarin ár hefur Ísland séð um formennsku í velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Síðan er líka forsætisnefnd sem stýrir starfi ráðsins og eftirlitsnefnd og kjörnefnd. Þetta eru nefndirnar.

Varðandi fjármögnunina á norræna samstarfinu er greitt eftir ákveðnum lykli miðað við þjóðarframleiðslu og Ísland borgar í kringum 1% af því sem norræna samstarfið kostar. Við fáum hins vegar mun meira til baka í gegnum norræna samstarfið en 1% ef maður leggst í þá reikninga. Ég lagðist í þær reikningskúnstir á sínum tíma fyrir forvitnissakir. Í ljós kom að við fáum mun meira en 1% út úr samstarfinu. Þó að við séum að sjálfsögðu ekki í þessu samstarf með það í huga að græða peninga þá er það bara þannig að við borgum 1% en fáum miklu meira út úr því. Þetta samstarf er okkur því gríðarlega mikilvægt, sérstaklega faglega séð, til að draga þekkingu bæði inn í stjórnmálin en ekki síður inn í embættismannakerfið. Við höfum aðgang að embættismönnum hinna landanna í ráðuneytum, við erum kannski með einn eða tvo sérfræðinga á einhverju sviði, jafnvel engan, en hinar Norðurlandaþjóðirnar eru með 5 til 10, 20 eða fleiri. Við höfum því getað sogað að okkur mjög mikla fagþekkingu út úr þessu samstarfi. Það er því alveg gríðarlega mikilvægt.

Mig langar að gera tvö atriði að umtalsefni, aðallega starfið sem fer fram í velferðarnefndinni en líka þær umræður sem hafa verið á vettvangi Norðurlandaráðs um skýrslu Gunnars Wetterbergs og ég heyrði að hv. þm. Helga Hjörvar, formann Íslandsdeildar, koma inn á áðan. Það eru gríðarlega áhugaverðar umræður um hvort norrænu ríkin eigi að vinna mun sterkar saman en þau gera með þeim rökum að þá yrðu þau, ef þau mundu verða álitin eitt hagkerfi, ellefta stærsta hagkerfi heims og ættu þá sæti við háborðið má segja á vettvangi þjóða. Þá yrði líklega hægt að gæta hagsmuna Norðurlandanna mun betur en í dag. Að sjálfsögðu er umræðan bara rétt að fara í gang og margir hræddir við að hún leiði til þess að Norðurlöndin verði einhvern veginn eitt ríki. Ég held að enginn sé alveg tilbúinn til að stíga það skref nú en ég tel að umræðan muni þróast í þá átt næstu ár og áratugi að Norðurlöndin verði álitin nánast eitt svæði eða ríki.

Aðeins yfir að velferðarnefndinni. Þar höfum við að mínu mati unnið mikilvægt starf. Sumt af því sem þar hefur verið rætt hefur með beinum hætti verið tekið inn í löggjöf hér á landi. Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Ég ætla að nefna transfitusýrumálið sem við komum nýlega í höfn, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið út reglugerð þannig að frá og með 1. ágúst í ár geta neytendur verið alveg öruggir á því að það er ekki mikil transfitusýra í þeim mat sem þeir innbyrða. Því er ekki þannig farið nú. Danir settu fyrst lög af þessu tagi, síðan við og Svíar eru að ræða þetta. Málið á rætur að rekja til norræna samstarfsins þar sem við, íslenskir þingmenn, tókum eiginlega dönsku löggjöfina hingað beint inn eftir að hafa kynnst þessu máli á norrænum vettvangi.

Skráargatið er annað mál sem mælt var fyrir í gær af þeirri er hér stendur. Það er hollustumerking á matvæli sem hefur verið við lýði í Svíþjóð í um 20 ár og í nokkur ár í Danmörku og Noregi. Finnar eru með svipað merki sem heitir Hjartamerkið og við leggjum til að við tökum það líka upp hér. Íslenskir neytendur ættu að geta verslað holla matvöru hratt og örugglega ef hún verður merkt með svokölluðu Skráargati, sem er hollustumerki.

Fleiri mál hafa ratað hingað inn á borð. Eitt mál liggur fyrir sem er forvarnamál gagnvart eldri borgurum um að þeir verði heimsóttir reglulega til að fyrirbyggja að þeir fari of snemma inn á stofnanir. Það er líka mál sem á rætur að rekja til starfs velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Við leggjum til að við gerum það sama og Danir gera varðandi eldri borgara. Þetta eru dæmi um mál sem við tökum beint í gegnum þetta norræna samstarf og reynum að koma í gegnum þingið hér landi.

Ég vil líka nefna að velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur á hverju ári ákveðið þema. Í hittiðfyrra var það hvernig ætti að fyrirbyggja að börn yrðu fyrir miklum heilsufarslegum skaða vegna lélegra félagslegra aðstæðna. Í fyrra einbeitti velferðarnefndin sér að lífsgæðum eldri borgara og í ár skoðum við mjög spennandi verkefni um hvernig eigi að vinna gegn svokallaðri gettóvæðingu eða vinna gegn því að t.d. fólk frá ákveðnum löndum hópi sig saman í blokkir og svæði eins og við höfum horft upp á í Danmörku og Svíþjóð og að einhverju leyti hjá öðrum norrænum ríkjum, en við munum skoða sérstaklega á vettvangi velferðarnefndar Norðurlandaráðs hvernig hægt er að sporna við því.

Í heildina vil ég segja (Forseti hringir.) að þetta er mjög jákvæð skýrsla sem sýnir hvað samstarf okkar á norrænum vettvangi er gríðarlega mikilvægt.