139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

Vestnorræna ráðið 2010.

607. mál
[13:48]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir síðasta ár. Mig langar í upphafi máls míns að gera aðeins grein fyrir Vestnorræna ráðinu.

Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í höfuðstað Grænlands, Nuuk, 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd eða Vestnorden. Á ársfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarríkjanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.

Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Ráðið kemur reglulega saman tvisvar sinnum árlega til ársfundar og þemaráðstefnu. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formönnum landsdeilda hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda og ráðið heldur síðan árlega þemaráðstefnu þar sem sérstök málefni eru tekin fyrir. Auk þess getur ráðið skipað vinnunefndir um tiltekin mál.

Markmið Vestnorræna ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum ráðsins með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna sem samþykkt eru á ársfundi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, menningarmál, íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt, en jafnframt vinnur ráðið að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu, evrópsku og norðurskautssamstarfi.

Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á að formgera slíkt samstarf. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda og árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs sem veitir Vestnorræna ráðinu aukinn tillögu- og málflutningsrétt á Norðurlandaráðsþingi. Árið 2008 var svo undirritaður samningur við sendinefnd Evrópuþingsins um reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.

Stjórn fiskveiða, björgunarmál á norðurslóðum, menntamál og hval- og selveiðar voru meðal þeirra mála sem mest var fjallað um á vettvangi Vestnorræna ráðsins árið 2010. Þemaráðstefna ráðsins fór fram á Sauðárkróki í júní sl. og var að þessu sinni tileinkuð fiskveiðistjórnarkerfum. Fyrirlesarar frá vestnorrænu löndunum þremur og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynntu kosti og galla þeirra fiskveiðistjórnarkerfa sem notast er við á Vestur-Norðurlöndum og innan Evrópusambandsins og miðluðu af reynslu sinni af virkni þeirra. Íslandsdeildin sótti í beinu framhaldi ráðstefnu norrænu ráðherranefndarinnar í Færeyjum um sama efni og er það í fyrsta skipti sem ráðið og norræna ráðherranefndin eiga með sér formlegt samstarf um ráðstefnuhald af þessu tagi.

Á ársfundi sínum í ágúst samþykkti ráðið svo ályktun sem hvetur ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda til að hefja samstarf um stjórn á veiðum úr sameiginlegum deilistofnum. Ársfundur Vestnorræna ráðsins fór að þessu sinni fram í Tasiilaq á austurströnd Grænlands, en auk áðurnefndrar ályktunar um fiskveiðistjórnarmál samþykkti fundurinn m.a. ályktanir um útsendingar vestnorrænu ríkisfjölmiðlanna í öllum löndunum þremur, um eflingu samgangna milli Vestfjarða og austurstrandar Grænlands, um stofnun vestnorræns sögu- og samfélagsseturs, vestnorrænt samstarf til að bæta stöðu einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum og athugun á fyrirkomulagi vöruflutninga við austurströnd Grænlands. Þá samþykkti ársfundurinn yfirlýsingu sem Íslandsdeildin lagði fram vegna sölubanns Evrópusambandsins á selskinnsvörum og vegna fyrirvara Evrópuþingsins þess efnis að Ísland yrði að hætta hvalveiðum áður en af inngöngu í Evrópusambandið yrði, en í yfirlýsingu Vestnorræna ráðsins er réttur þjóða til sjálfbærrar nýtingar á auðlindum hafsins ítrekaður.

Sú sem hér stendur er formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og var kjörin formaður Vestnorræna ráðsins á ársfundinum í Tasiilaq. Sem formaður ráðsins var ég því m.a. viðstödd útför Jónatans Motzfeldts, fyrrverandi formanns heimastjórnar Grænlands og forseta Grænlandsþings, í Nuuk í nóvember sl. Þá sat ég einnig þing Norðurlandaráðs í Reykjavík þar sem ég gerði mikilvægi þess að ná bindandi samningi um björgunarmál á norðurslóðum að meginumtalsefni. Ég sótti einnig fund stjórnarnefndar þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa, en Vestnorræna ráðið hefur áheyrnaraðild að nefndinni.

Að venju hélt forsætisnefnd ráðsins tvo fundi utan þemaráðstefnu og ársfundar. Á fundi forsætisnefndar í Kaupmannahöfn í mars ræddi nefndin m.a. möguleika þess að staðsetja norrænan háskóla á Vestur-Norðurlöndum. Af því tilefni tilkynnti formaður landsdeildar Færeyja, Kári P. Højgaard, að Færeyingar hefðu ákveðið að veita fé til reksturs vestnorræns sögu- og samfélagsseturs sem mundi til að byrja með hafa aðsetur í Háskóla Færeyja. Forsætisnefndin kom einnig saman í Reykjavík í nóvember í tengslum við Norðurlandaráðsþing þar sem m.a. var hugað að leiðtogafundi vestnorrænu landanna sem áætlað er að fram fari næsta sumar. Forsætisnefndin átti einnig fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ráðherrum vestnorrænu landanna á sviði félagsmála, menntamála, utanríkismála og norrænnar samvinnu.

Hvað menningarmál varðar voru bókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins veitt þann 1. september sl. og var það skáldkonan Gerður Kristný sem hlaut þau að þessu sinni fyrir skáldsöguna Garðinn. Á fánadegi Færeyja, 25. apríl, var haldinn færeyskur menningardagur í samstarfi við Sendistovu Færeyja og var það í annað sinn sem slíkur dagur var haldinn.

Loks var þingmannanefnd Íslands og Færeyja um framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja — Hoyvíkursamningsins svokallaða — stofnuð á árinu og mun Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sinna verkefnum hennar fyrir hönd Alþingis. Grænland á áheyrnaraðild að nefndinni til að fylgjast með framkvæmd samningsins.

Á árinu 2010 skipuðu Íslandsdeildina hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, sem hér stendur og er formaður, fyrir þingflokk Samfylkingar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, fyrir þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Atli Gíslason úr sama þingflokki, Árni Johnsen, úr þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigurður Ingi Jóhannsson, úr þingflokki Framsóknarflokks, og Þráinn Bertelsson, óháður og síðar fulltrúi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu þar sem þátttaka í starfsemi ráðsins var undirbúin. Á vettvangi ráðsins lagði Íslandsdeild m.a. fram tillögur að ályktun um aukna samvinnu vestnorrænu ríkisfjölmiðlanna sem ég gat um áðan, og yfirlýsingu vegna sölubanns Evrópusambandsins á selskinnsvörum sem fyrr er getið, sem og í tilefni af fyrirvara Evrópuþingsins þess efnis að Ísland verði að hætta hvalveiðum áður en til inngöngu í Evrópusambandið kemur. Íslandsdeildin samþykkti, líkt og síðar var tekið upp á ársfundi, yfirlýsingu um rétt þjóða til sjálfbærrar nýtingar á auðlindum hafsins.

Hvað varðar trúnaðarstörf fyrir Vestnorræna ráðið var formaður Íslandsdeildar kjörinn formaður ráðsins á ársfundi þess í ágúst og sat, eins og ég gat um áðan, 62. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember og fund stjórnarnefndar þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa.

Íslandsdeildin kom einnig að skipulagningu ráðstefnu vestnorrænna þingkvenna í samstarfi við forseta Alþingis. Sú ráðstefna fór fram 7. júní í Þjóðmenningarhúsinu. Ráðstefnuna sóttu 16 þingkonur frá öllum vestnorrænu löndunum þremur ásamt fjölda annarra gesta. Á ráðstefnunni fjölluðu fyrirlesarar frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi um stöðu vestnorrænna kvenna í stjórnmálum og atvinnulífi og gerð var grein fyrir sértækum leiðum til að til að jafna völd karla og kvenna í stjórnmálum og atvinnulífi, auk þess sem fjallað var um kynjaða hagstjórn og jafnréttisuppeldi.

Þetta eru í grófum dráttum stærstu viðburðirnir sem átt hafa sér stað og það helsta sem borið hefur að höndum Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins undanfarið ár. Dreift hefur verið í þinginu nokkrum þingsályktunartillögum sem byggðar eru á samþykktum Vestnorræna ráðsins að þessu sinni á síðasta ársþingi. Það eru:

Ályktun um vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra.

Ályktun um stofnun vestnorræns sögu- og samfélagsseturs.

Ályktun um eflingu samgangna milli Vestur-Norðurlanda.

Ályktun um samvinnu milli vestnorrænu landanna um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum.

Ályktun um samvinnu milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu landanna.

Ályktun um athugun á fyrirkomulagi fraktflutninga á austurströnd Grænlands.

Þingsályktunartillögurnar munu, vænti ég, koma til umræðu í þinginu innan tíðar og ég vænti þess að þær fái hér skjóta og góða og eðlilega afgreiðslu.