139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

norðurskautsmál 2010.

576. mál
[14:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég flyt skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2010.

Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2010 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi verið í brennidepli.

Fyrst ber að nefna níundu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var í Brussel í september, en umræða tengd skipulagningu hennar var fyrirferðarmikil á árinu. Mikið var rætt um helstu þemu á dagskrá ráðstefnunnar sem voru sjálfbær nýting lifandi auðlinda á norðurskautssvæðinu, samvinna á sviði menntunar og rannsókna auk eftirfylgni við alþjóðlegt heimskautaár og loftslagsbreytingar. Fulltrúar Íslandsdeildar lögðu áherslu á umræðu um öryggis- og björgunarmál á hafi í ljósi afleiðinga minnkandi hafíss á norðurskautssvæðinu og fyrirsjáanlegrar opnunar nýrra siglingaleiða. Auk þess studdi Íslandsdeild við frumkvæði Íslands við gerð annarrar vísindaskýrslu um loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu og afleiðingar þeirra fyrir vistkerfi og mannlíf svæðisins sem liggja á fyrir árið 2014. Þar sem þingmannaráðstefnan var haldin í Evrópuþinginu í Brussel var umræða um hlutverk Evrópusambandsins á norðurskautssvæðinu áberandi og ljóst að mikill áhugi er á því innan sambandsins að taka virkan þátt í umræðu og stefnumótun um norðurskautsmál innan sambandsins.

Vert er að geta þess að þingmannaráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti og þetta var í fyrsta sinn sem hún var haldin utan landanna sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu en fulltrúar Evrópuþingsins eiga aðild að þingmannanefnd Norðurskautsráðsins.

Í öðru lagi var umræða um umhverfismál með áherslu á loftslagsbreytingar að venju mjög áberandi. Áhersla var lögð á aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingunum með áherslu á lífsskilyrði og heilsufar íbúa norðurskautsins. Rætt var um mikilvægi þess að samvinna yrði um málefni svæðisins, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá var lögð áhersla á réttindi frumbyggja til náttúruauðlinda á svæðinu auk þeirra áskorana og tækifæra sem fram undan eru og ábyrgð strandríkjanna.

Í þriðja lagi fór fram umræða um breytingar á starfsreglum þingmannanefndarinnar varðandi formennsku og varaformennsku hennar. Lögð var fram tillaga um það að formennska í nefndinni skiptist á milli aðildarríkjanna og komið yrði á varaformannsembætti. Þessi breyting gæti stuðlað að auknum skilningi þinga aðildarríkjanna á málefnum norðurslóða og verkefnum þingmannanefndarinnar. Var í fyrsta sinn kjörið í nýtt embætti varaformanns á fundi nefndarinnar í október og tekin ákvörðun, að tillögu Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um að hefja undirbúning að því að koma á kerfi þar sem formennskan færðist milli aðildarríkjanna með reglulegu millibili. Drög að fyrirkomulagi voru rædd á fyrsta fundi ársins 2011 sem fram fór í Tromsö í febrúar sl. og ákvörðun tekin um breytingarnar í framhaldinu.

Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2010 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, áhersluatriði formennsku Danmerkur í Norðurskautsráðinu og nýtingu orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt á svæðinu.

Vert er að geta þess hvernig Íslandsdeild Norðurskautsráðsins er skipuð. Aðalmenn í henni eru hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem er formaður Íslandsdeildarinnar. Í fjarveru hennar hef ég verið formaður, en ég er varaformaður nefndarinnar, og þriðji þingmaðurinn í þingmannanefndinni er hv. þm. Kristján Þór Júlíusson frá Sjálfstæðisflokknum. Varamenn voru hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Margrét Tryggvadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir og ritari Íslandsdeildarinnar er Arna Gerður Bang.

Þá er einnig vert að geta þess án þess að skýrslan sé lesin hér frá orði til orðs — þingmenn hafa tök á því að kynna sér efni hennar í þingskjölum — að bæði ráðherrasamvinnan og sú þingmannasamvinna sem fer fram í Norðurskautsráðinu er einstök í sinni röð. Aðild að henni eiga þau átta ríki sem teljast til norðurslóða, það eru Ísland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð Finnland, Rússland, Kanada og Bandaríkin. Ég veit ekki til þess að samvinna af þessu tagi eða þessu lík sé til sambærileg nema ef vera skyldi samvinnan sem á sér stað innan Norðurlandaráðs.

Ástæða þess að þessi ríki tóku höndum saman að upphaflegri tillögu Íslands, sem varð til í Norðurlandaráði á tíunda áratugnum, er sú að hér er margra sameiginlegra hagsmuna að gæta fyrir þau lönd sem ekki bara eiga strönd eða land að Norður-Íshafi eða að norðurskautinu heldur fyrir þau lönd sem eru norðan 62. breiddargráðu. Þar eru bæði miklir hagsmunir í húfi er varða náttúruauðlindir, nýtingu þeirra, sjálfbæra nýtingu þeirra og verndun. Það býr fjöldi frumbyggja, margar þjóðir innan þjóðríkja og þessir frumbyggjar hafa verið að leita réttar síns á síðustu árum og áratugum, sums staðar með mjög glæsilegum og góðum árangri. Þar er einnig verið að glíma við umhverfisvanda sem á engan sinn líka og einkennist fyrst og síðast af hinum gríðarlegu loftslagsbreytingum sem eru að verða í lofthjúpi jarðar, en þar má segja að norðurskautið virki eins og kanarífuglinn í kolanámunni, hefur stundum verið sagt, þar verða breytingar bæði fyrr og reyndar mun hraðari sums staðar en annars staðar á jörðinni, því miður.

Við þessu hefur þurft að bregðast í samvinnu bæði þingmanna og ekki síður vísindamanna frá þessum löndum og á milli þessara landa fer fram mikið og merkilegt vísindasamstarf bæði fræðimanna og nema og þá einnig þetta þingmannasamstarf að ógleymdu samstarfi ráðherranna.

Nauðsynlegt er að fara yfir þetta hér af því að hér er um samstarf að ræða sem ég hygg að sé ekki bara gagnlegt fyrir Ísland heldur mjög mikilvægt og eigi að vera og sé vaxandi þáttur í utanríkisstefnu Íslands eins og reyndar kemur fram í stefnu ríkisstjórnar Íslands. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram tillögu um stefnu í norðurslóðamálum. Hún hefur verið til umræðu í hv. utanríkismálanefnd og ég veit ekki annað en að hún verði afgreidd þaðan. Þar erum við m.a. í takt við þá samvinnu sem við eigum við önnur lönd innan Norðurskautsráðsins að marka mjög skýra stefnu til frambúðar í málefnum norðurskautsins og þar, eins og ég sagði áður, er í mörg horn að líta. Það eru öryggismálin, umhverfismálin, réttindi frumbyggja, skipaleiðirnar, það eru jafnvel hernaðarlegir hagsmunir, alla vega margra þeirra ríkja sem þarna eru, og svo auðvitað, eins og margir vita, mjög vaxandi áhugi annarra ríkja og ríkjasambanda á málefnum norðurslóða. Það sést ekki síst í áhuga þingmanna á Evrópuþinginu og þátttöku þeirra í þingmannasamstarfinu, sem er mjög af hinu góða og styrkir það, og síðan hafa önnur ríki, stórríki á borð við Kína og fleiri sem eru jafnvel á suðurhveli jarðar, sótt það nokkuð fast að fá fasta áheyrnaraðild að ráðinu. Allt er þetta til umfjöllunar innan Norðurskautsráðsins, bæði innan þingmannasamstarfsins og einnig í samstarfi ráðherranna.

Ég hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér þetta samstarf og gera sér ljós gildi þess, hafi menn ekki gert það nú þegar sem ég vona að allir hafi gert, og að sinna því sem skyldi, bæði fulltrúa í hv. utanríkismálanefnd og aðra sem hér starfa, ekki síst í alþjóðanefndum, og að sjálfsögðu tengist þetta starf starfi okkar í öðrum alþjóðanefndum hvort sem það er Íslandsdeild Norðurlandaráðs eða Íslandsdeild NATO eða ÖSE eða þar fram eftir götunum.

Ég vil að síðustu gera grein fyrir því, frú forseti, að ég lagði til í framhaldi af því að þingmaður frá Svíþjóð, sem síðan lét af störfum, hafði bryddað upp á þeirri hugmynd í þingmannanefnd Norðurskautsráðsins, að við mundum rótera formennsku þingmannanefndarinnar. Ég hef fyrir hönd Íslandsdeildarinnar lagt fram um það formlega tillögu sem er til umræðu innan ráðsins, innan nefndarinnar, og verður vonandi afgreidd á fundi þingmannanefndarinnar sem verður í Reykjavík 9. júní nk. Við erum eindregið þeirrar skoðunar, Íslendingar, að svo eigi að vera, þetta er samstarf á jafnréttis- og jafnræðisgrundvelli, og það sé bæði eðlilegt og gott og skynsamlegt að formennskan fari reglulega á milli landanna eins og varaformennskan, þannig að allir sem taka þátt í samstarfinu þurfi að axla ábyrgð á því að halda samstarfinu gangandi í nokkur ár í senn. Hvort það verða tvö eða þrjú eða fjögur ár er óákveðið á þessari stundu en ég hygg að þorri þeirra ríkja sem tekur þátt í samstarfinu muni styðja það á fundi okkar í Reykjavík í júní nk.

Í samstarfi Norðurskautsráðsins taka einnig þátt fulltrúar bæði Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðsins og þar myndast gott samtal bæði á milli okkar þingmannanna frá Alþingi og einnig samtal okkar við aðra þingmenn að sjálfsögðu og þingmenn Evrópuþingsins. Ég hygg að með því að sinna samstarfi í Norðurskautsráðinu af samviskusemi og elju, eins og ég hygg að hafi verið gert í gegnum áranna rás á hinu háa Alþingi, séum við ekki bara að njóta góðs af því heldur hafa Íslendingar haft mjög margt fram að færa í þessu samstarfi. Er þar kannski nærtækast að nefna skýrsluna sem kölluð er upp á ensku Human Development Report, sem unnin var af Stofnun Vilhjálms Stefánssonar við Háskólann á Akureyri og er mjög merkilegt plagg og hið eina sinnar tegundar um þróun mannlífs og lífsskilyrða á norðurslóðum. Við höfum lagt til og gerum ráð fyrir að það gangi eftir að önnur slík skýrsla verði rituð og hún líti dagsins ljós vonandi eigi síðar en 2014. Það hefur verið mjög merkt og gott og þarft framlag íslenskra fræðimanna til þessa samstarfs og í raun inn í þann gagnabanka sem verið er að skapa með beinum og óbeinum hætti í þessu samstarfi.

Ég læt þá lokið upplestri mínum og hugleiðingum um starfið í Norðurskautsráðinu og skýrsluna sem hér er. Undir skýrsluna rita ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Margrét Tryggvadóttir.