139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

NATO-þingið 2010.

611. mál
[14:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að bregðast örstutt við kannski því síðasta sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir fjallaði um í máli sínu um skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins. Það er sú siðferðilega spurning sem stjórnvöld hér og annars staðar geta staðið frammi fyrir ef ástandið heldur áfram í þá átt sem við höfum verið að horfa upp á í Líbíu og við ræddum í utandagskrárumræðu fyrr í dag og einnig í síðustu viku.

Það er auðvitað alveg ljóst í mínum huga að þarna verða menn að læra af reynslunni. Við höfum séð hernaðaríhlutun eins og í Írak og í Afganistan sem hefur staðið árum saman og er í raun ekki að leysa þann vanda sem við er að glíma og hefur haft í för með sér gríðarlega mikið mannfall meðal óbreyttra borgara. Þess vegna er eðlilegt að menn séu hikandi þegar Líbía á í hlut núna og það er ekki tilviljun að það er Líbía. Ég held að það sé reynslan sem þarna er að verki að menn eru einfaldlega smeykir við það og um það að hernaðaríhlutun leysi ekki þann vanda sem við er að glíma. Í mínum huga er það nú hin almenna regla að hernaðaríhlutun leysir ekki þau vandamál sem henni er ætlað að leysa og í öllu falli skapar oft á tíðum önnur ný.

Ég held að þetta sé staðan. Þess vegna hef ég lagt á það mikið kapp að allar aðgerðir af hálfu alþjóðasamfélagsins verði að vera undir hatti Sameinuðu þjóðanna og á grundvelli stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna þar að lútandi. Ég held líka að það sé algjör forsenda fyrir því að það verði almennur stuðningur, stuðningur almennings í þeim löndum sem hlut eiga að máli, fyrir einhverjum aðgerðum að það sé undir hatti Sameinuðu þjóðanna. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að aðgerðir stjórnvalda verði að njóta almenns stuðnings í þeim ríkjum sem hlut eiga að máli.