139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

NATO-þingið 2010.

611. mál
[14:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, að sjálfsögðu væri það óskastaða. Ég ætla að hafa smáformála hér á. Ég er ekki að segja að það sé einfalt og að ég sé búin að taka ákvörðun um það að hernaðaríhlutun í Líbíu sé eina lausnin. Ég sagði áðan að auðvitað væri miklu betra ef til slíkra aðgerða kæmi að þær væru byggðar á ályktun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, að almenningur hefði trú á því að þetta væri leiðin sem fara ætti og að við værum öll í hjartanu sannfærð um að þetta væri mögulegt og við gætum gert þetta fljótt og vel. Það er að sjálfsögðu óskastaða.

Það sem ég vildi leggja áherslu á hér og gerði líka í utandagskrárumræðunni um daginn er að við verðum kannski ekki í þeirri óskastöðu. Ef til þess kemur og við sjáum að það er — akkúrat á þessum tímapunkti eru ekki miklar líkur á að hið svokallaða alþjóðasamfélag nái saman um þetta. Það er verið að ræða flugbann sem er náttúrlega hernaðarleg íhlutun og krefst hernaðarlegra aðgerða en það er verið að ræða það til að stoppa árásir þessa harðstjóra á saklausu borgara. Meðan við sitjum og ræðum eru saklausir borgarar að láta lífið. Það er alveg rétt, og ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni áðan, að inn í þetta blandast reynslan af liðnum tíma. Ekki var samkomulag um aðgerðirnar í Írak en það er nánast sama staða uppi núna varðandi Líbíu og var þá. Þar var á ferð og hér er á ferð harðstjóri sem vílar ekki fyrir sér að drepa sitt eigið fólk. Það er líka siðferðileg spurning: Hvernig bregst alþjóðasamfélagið við þeirri staðreynd? Við værum eflaust enn að bíða eftir ályktun öryggisráðsins varðandi Kósóvó (Forseti hringir.) en NATO tók á þeim tíma ákvörðun, samhljóða ákvörðun um að fara og stöðva þær ógnarárásir sem þar voru á ferð og (Forseti hringir.) það heppnaðist. Þetta er siðferðileg spurning en hún er ekki einföld.