139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

NATO-þingið 2010.

611. mál
[14:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála þingmanninum um að hér eru siðferðilega erfiðar spurningar á ferðinni en ég er ekki endilega viss um að við yrðum sammála miklu lengra í þeirri umræðu. Ég segi eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðunni í morgun að ég tel ekki hægt að bera saman stöðuna í Írak á sínum tíma og stöðuna í Líbíu núna. Núna höfum við horft upp á má segja uppreisn almennings í mörgum af þessum arabaríkjum þar sem harðstjórar til margra ára og áratuga hafa fallið. Í Líbíu hefur harðstjóranum þar tekist einhvern veginn að búa svo um hnúta að hann situr enn við völd og er heldur að herða róðurinn gegn sínum eigin þegnum.

Auðvitað er þetta snúin spurning. Ég er þeirrar skoðunar — og nú veit ég það reyndar að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er einmitt núna að fjalla sérstaklega um aðgerðir sem gæti hugsanlega náðst samstaða um sem fælu í sér loftferðabann eða flugbann. Hvort það er síðan nægilegt skal ósagt látið. Við höfum oft staðið frammi fyrir þessari spurningu. Og það eru ekki bara Írak og Afganistan, í umræðum undanfarið höfum við nefnt dæmi frá Rúanda, þjóðarmorðin þar, og auðvitað eru víða og allt of víða í alþjóðasamfélaginu í dag einræðisstjórnir sem svífast einskis gegn þegnum sínum, virða mannréttindi og lýðræði að vettugi án þess að alþjóðasamfélagið bregðist þar við. Maður hlýtur því að spyrja sig þeirrar samviskuspurningar: Af hverju er það? Er það vegna annarra hagsmuna sem hin svokölluðu vestrænu ríki sem oft eru leiðandi í þessari umræðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, ég tala nú ekki um Atlantshafsbandalagsins, efnahagslegra hagsmuna, hernaðarlegra hagsmuna, pólitískra hagsmuna sem menn er ekki reiðubúnir til að beita afli sínu af fullum þunga annars staðar (Forseti hringir.) en hika svo ekki við það á tilteknum stöðum eins og dæmin frá Írak og Afganistan sýna?