139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

NATO-þingið 2010.

611. mál
[14:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um að ekki sé hægt að bera saman það sem er að gerast í Líbíu núna og ástandið í Írak á sínum tíma. Mér finnst það mjög sambærilegt. Við stöndum frammi fyrir sama vanda núna og við stóðum frammi fyrir þá að ekki hefur, a.m.k. enn sem komið er, náðst samstaða meðal alþjóðasamfélagsins um það hvernig bregðast á við. Það er klemman sem ég vil vekja athygli á að gerir þetta mál miklu flóknara, alþjóðasamfélagið þarf að ákveða hvort það ætlar að standa á hliðarlínunni og horfa á þessar hörmungar gerast eða hvort það ætli að bregðast við. Þetta er spurningin.

Ég er sammála hv. þingmanni að það er ömurlegt að horfa upp á atburði eins og gerðust í Rúanda og við getum nefnt önnur lönd en við getum ekki notað aðgerðaleysið þar til að koma í veg fyrir að við bregðumst við hér. Eins og reynslan af Írak kennir okkur er betra að vera með lagagrundvöllinn og alþjóðasamfélagið á einu máli og þess vegna róa menn að því öllum árum að reyna að ná samstöðu, og það er rétt sem hv. þingmaður sagði að öryggisráðið er að funda um þetta bara í þessum töluðu orðum. En við eigum líka að læra af atburðum eins og gerast því miður allt of oft og Rúanda er gott dæmi um það þegar alþjóðasamfélagið gerði ekki neitt. Það er alveg jafnmikil skömm að því. Við eigum ekki að nota það sem tylliástæðu fyrir því að gera ekki neitt á öðrum stöðum. Auðvitað eigum við alltaf að taka málstað lýðræðisins, við eigum alltaf að taka málstað fólksins gegn harðstjórunum. Það er siðferðislega spurningin (Forseti hringir.) sem ég held að við verðum að svara.