139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2010.

583. mál
[14:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2010 sem er að finna á þingskjali 996, 583. mál.

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.

Í starfsemi þingmannanefnda EFTA og EES árið 2010 voru tvö mál einkum í brennidepli. Annars vegar var ítrekað fjallað um alþjóðlegu fjármálakreppuna og viðbrögð við henni og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA.

Frá sjónarhóli Íslands var umfjöllun um alþjóðlegu fjármálakreppuna einkar mikilvæg. Umfjöllun um hana var hvort tveggja í senn almenn og sértæk þar sem athygli beindist að íslenska bankahruninu og afleiðingum þess. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum sínum grein fyrir stöðu endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einnig grein fyrir Icesave-málinu svokallaða. Viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við bankahruninu komu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefndarinnar, bæði er varða bráðabirgðaálit stofnunarinnar um Icesave og gildi neyðarlaganna sem sett voru við bankahrunið.

Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Stöðnun í svokallaðri Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hefur gert það að verkum að samtök ríkja og einstök lönd hafa beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 22 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til að kynna slíka samninga og afla stuðnings við gerð þeirra.

Þá beitti Íslandsdeild sér fyrir því að málefni norðurslóða voru tekin á dagskrá þingmannanefndar EFTA í fyrsta skipti. Sérstök málstofa um norðurslóðamál, skipulögð af Íslandsdeild, var haldin í tengslum við fund þingmannanefndarinnar í Reykjavík í júní 2010.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar í þingmannanefndum EFTA og EES árið 2009 má nefna endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB, svæðasamvinnu innan EES, nýsköpun og EES og Evrópuár í baráttunni gegn fátækt.

Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA myndar sendinefnd Alþingis í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.

Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki.

Þingmannanefnd EES var komið á fót samkvæmt 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES, en það eru Ísland, Noregur og Liechtenstein.

Árið 2010 skipuðu Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES þingmennirnir Árni Þór Sigurðsson úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem var formaður, Valgerður Bjarnadóttir frá þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir frá þingflokki Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson frá þingflokki Framsóknarflokks og Þorgerður K. Gunnarsdóttir frá þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Björgvin G. Sigurðsson úr þingflokki Samfylkingarinnar, Skúli Helgason úr þingflokki Samfylkingarinnar, Vigdís Hauksdóttir úr þingflokki Framsóknarflokks og Guðlaugur Þór Þórðarson úr þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu. Þar var starfsemi Íslandsdeildar skipulögð og þátttaka í fundum þingmannanefnda EES og EFTA undirbúin.

Formennska í þingmannanefnd EFTA færist árlega á milli ríkjanna fjögurra og féll Íslandi í skaut á árinu 2010. Undirritaður þingmaður, Árni Þór Sigurðsson, var formaður nefndarinnar og þar með einnig annar tveggja formanna þingmannanefndar EES.

Alþjóðlega fjármálakreppan og sér í lagi málefni Íslands henni tengd komu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum sínum grein fyrir stöðu endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þróun Icesave-málsins. Viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við bankahruninu komu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefndarinnar, bæði er varða bráðabirgðaálit stofnunarinnar um gildi hinna svokölluðu neyðarlaga og bráðabirgðaálit varðandi Icesave-málið, lögmæti þess að gera upp á milli innstæðueigenda hérlendis og erlendis samkvæmt EES-samningnum og skyldur íslenskra stjórnvalda til að standa straum af lágmarkstryggingum til innstæðueigenda.

Þá kom aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu ítrekað til tals á fundum nefndanna og gerðu þingmenn Íslandsdeildar grein fyrir þróun umsóknarferlisins.

Á fundi þingmannanefndar EFTA í Reykjavík í júní gekkst Íslandsdeild fyrir sérstakri málstofu um norðurslóðamál. Efnistök voru þríþætt. Í fyrsta lagi var sjónum beint að milliríkjasamstarfi um norðurslóðamál, einkum á vettvangi Norðurskautsráðsins, og stefnumótun Íslands á þessu sviði. Í öðru lagi var fjallað um hagkerfi norðurskautssvæðisins og möguleg tækifæri samfara aukinni auðlindanýtingu á norðurslóðum, einkum á sviði gas- og olíuvinnslu. Í því sambandi var einnig fjallað um nýjar skipaleiðir sem kunna að opnast við minnkun íshellunnar á norðurskautinu og álitamál því samfara. Í þriðja lagi var gerð grein fyrir aukinni samvinnu og áherslu fræðasamfélagsins á málefni svæðisins innan Háskóla norðurskautsins.

Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2010. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar þrisvar sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherraráði EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum í þjóðþingum Albaníu og Serbíu í tengslum við fullgildingu fríverslunarsamninga EFTA við þessi ríki tvö.

Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Fimm skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, hv. alþingismaður og fulltrúi í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES, var höfundur skýrslunnar Evrópa 2020: Nýsköpun og EES , ásamt Evrópuþingmanninum Paul Rübig. Í framsöguræðu sinni lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir áherslu á að við niðurskurð til þess að bregðast við fjármálakreppunni bæri að forðast að skera niður framlög til rannsókna og þróunar sem væru forsenda þekkingarþjóðfélags og hagvaxtar til langframa. Framlög til þessara mála væru umtalsvert lægri í Evrópu en í Bandaríkjunum og Japan. Markmið stefnunnar um Evrópu 2020 um að 3% af vergri landsframleiðslu álfunnar yrði varið til þróunar og rannsókna árið 2020 mundi skapa 3,7 milljónir starfa.

Á vettvangi þingmannanefndar EES árið 2010 voru eftirfarandi ályktanir samþykktar og sendar Evrópuþinginu og Alþingi og viðkomandi stjórnvöldum:

Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2009 sem var samþykkt í Vaduz í Liechtenstein 29. mars 2010.

Ályktun um EES og sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB sem samþykkt var í Vaduz 29. mars 2010.

Ályktun um EES og svæðasamvinnu, samþykkt í Vaduz 29. mars 2010.

Ályktun um Evrópu 2020: Nýsköpun og EES, samþykkt á fundi í Strassborg 25. nóvember 2010.

Ályktun um Evrópuár 2010 í baráttu gegn fátækt sem samþykkt var í Strassborg 25. nóvember 2010.

Ég vil að lokum, frú forseti, leyfa mér að vísa til skýrslunnar sem finna er á þingskjali 996 að öðru leyti en því sem ég hef hér rakið í mjög stuttu og knöppu máli.

Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES fyrir góða og trausta samvinnu og sömuleiðis nefndarritara og starfsmanni nefndarinnar á skrifstofu EFTA í Brussel fyrir aðstoð og ánægjulegt samstarf.

Undir skýrsluna rita Árni Þór Sigurðsson formaður, Valgerður Bjarnadóttir varaformaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.