139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

lax- og silungsveiði.

202. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Álitið er frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Í nefndaráliti er gerð grein fyrir gestum sem komu fyrir nefndina og umsögnum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur greinum laga um lax- og silungsveiði. Annars vegar er lagt til að gildistími innlausnarréttar skv. 10. gr. laganna verði framlengdur um fimm ár, þ.e. til 30. júní 2016, en samkvæmt gildandi ákvæði er innlausnarrétturinn tímabundinn og gildir til 30. júní 2011. Hins vegar er lögð til sú breyting á 44. gr. laganna að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði veittur réttur til að tilnefna einn þriggja nefndarmanna í matsnefnd. Samkvæmt gildandi ákvæði greinarinnar er gert ráð fyrir að tveir nefndarmenn matsnefndar séu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga.

Flestir umsagnaraðilar gerðu ýmist ekki athugasemdir við frumvarpið eða hvöttu til þess að það yrði samþykkt óbreytt. Einn umsagnaraðili benti á að greinargerð frumvarpsins innihéldi lítinn efnislegan rökstuðning fyrir þeim breytingum sem það fæli í sér. Þannig væri aðeins upplýst að nú væri til meðferðar mál til ákvörðunar hjá ráðuneytinu sem varðaði innlausn á grundvelli 10. gr. laganna.

Í 1. mgr. 9. gr. lax- og silungsveiðilaga kemur fram sú meginregla að óheimilt sé að skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu frá fasteign.

Nefndin tekur undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á 1. gr. frumvarpsins að greinin feli í sér tiltölulega lítt rökstudda framlengingu heimildar til íþyngjandi innlausnar veiðiréttinda. Er það álit nefndarinnar að það þurfi mjög knýjandi rök til að víkja frá áætlunum löggjafans við setningu núgildandi lax- og silungsveiðilaga um stuttan gildistíma ákvæðis 10. gr. laganna. Að öðrum kosti væri dregið úr líkum á því að markmiðum laganna yrði náð. Telur nefndin rök af þeirri gerð hvorki hafa verið færð fram við framlagningu frumvarpsins né á seinni stigum málsins. Telur nefndin að sá tími sem eftir er af gildistíma ákvæðis um innlausnarrétt ætti að nægja stjórnvöldum til þess að leiða til lausnar þær kröfur um innlausn sem þegar hafa verið lagðar fram. Þá ætti þeim sem hyggja á framlagningu slíkra krafna að vera slíkt fært á hinum sama tíma.

Á fundi nefndarinnar kom það sjónarmið fram að rétt kynni að vera að útfæra 2. gr. frumvarpsins á þann hátt að allir nefndarmenn matsnefndar, skv. 44. gr. lax- og silungsveiðilaga, væru óháðir hagsmunaaðilum. Var nefnt að slíkt væri ef til vill fært með því að allir nefndarmenn væru skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar.

Nefndin hefur tekið framangreint sjónarmið til skoðunar. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beri ábyrgð á lax- og silungsveiðimálum hér á landi. Þá er á það bent að meiri hluti laxveiðiáa landsins sé í eigu bænda og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fari með yfirstjórn landbúnaðarmála hér á landi. Þá hafi aðalfundur Landssambands veiðifélaga 2010 beint því til stjórnar félagsins að hún beitti sér fyrir skoðun á lax- og silungsveiðilögum, m.a. varðandi skipun í matsnefnd skv. 44. gr. laganna. Á fundi nefndarinnar var vakin athygli á því að fyrir kæmi að kvartanir bærust til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna matskostnaðar fyrir matsnefnd og ráðherra hefði engin tök á að bregðast við slíkum athugasemdum. Að auki kom fram að aðilar sem Landssamband veiðifélaga hefur tilnefnt til nefndarstarfa í gegnum tíðina hafi búið yfir þekkingu sem nauðsynleg sé til þess að slík nefnd reynist starfi sínu vaxin.

Nefndin telur nauðsynlegt að Landssamband veiðifélaga hafi þá aðkomu að skipun hennar að tryggt sé að nægileg sérfræðiþekking sé til staðar í nefndinni og enn fremur að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi einn fulltrúa.

Að öllu framansögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. 1. gr. falli brott.

2. 3. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita hv. þingmenn Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, Einar K. Guðfinnsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson og Valgerður Bjarnadóttir.