139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:39]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið gaman að þessu svari við andsvari mínu vegna þess að langur tími fór í það og margar ræður voru settar á hér fyrr í dag vegna þess að forsætisráðherra spurði spurninga þegar hún var spurð spurninga. Það er dálítið gaman að því hvernig þetta hefur (Gripið fram í.) snúist við.

Hv. þingmaður neitaði því ekki að svona hefði ferlið verið lagt upp. Ég hafði óformlega samráð við forustumann stjórnmálaflokks hv. þingmanns þar sem ég fór yfir það hvaða lögmenn ég mundi leggja til í þessa vinnu. (Gripið fram í: Fenguð þið …?) Það er einfaldlega þannig. Ég fór óformlega yfir það. Þessi lögmannahópur var talinn endurspegla vel þau sjónarmið sem uppi hafa verið í þessu máli. Þess vegna fór hann í það verkefni að ljúka þessari vinnu. Ég tel að við höfum mætt þessu eins vel og hægt er.

Það má svo sem ræða út í hið óendanlega hvernig menn hefðu viljað haga vinnunni. Þegar samið var um þessa fjórðu tillögu hér í skýrslu hinnar þverpólitísku vatnalaganefndar fór Sjálfstæðisflokkurinn með forsætisráðuneytið. Á þeim grunni gerði Sjálfstæðisflokkurinn kannski ráð fyrir því að vera með í þeirri vinnu. Svo breyttist stjórnarsamstarfið í millitíðinni og annar stjórnmálaflokkur kom að borðinu. Vissulega breyttist margt. En það sem er fyrir öllu, virðulegi forseti, er að við náum að fara af stað í efnislega umræðu um þetta mikilvæga mál. Það er orðið tímabært að við reynum að setja þessar deilur til hliðar og finna farsæla lausn til lengri tíma. Það er aðalatriðið þó að hv. þingmaður hafi án efa gaman af því að fara yfir formið og pexa við mig um það.