139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt eins og örlað hefur á í þessari umræðu að frumvarpið sem er til umræðu dettur ekki niður úr neinu tómarúmi heldur er ákveðin niðurstaða af ferli sem hefur verið í gangi undanfarin ár og upphófst með endurskoðun vatnalaganna og frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/2006. Síðan hefur málið verið í miklum umræðufarvegi, nefndarskipan og af og til komið inn í þingið ýmist með frestun eða einhverja slíka þætti í huga. Ég ætla ekki að fara í það að svo stöddu.

Í sjálfu sér er ég nokkuð feginn að sjá að í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að þær meginreglur vatnalaganna frá 1923 sem snerta eignarréttindi og eignarréttindi á vatni eiga að standa áfram. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt og í mínu huga hefur aldrei verið aðalatriði hvort upptalning á þeim réttindum sé endilega það sem kallað er jákvæð eða neikvæð í lagatextanum heldur að það sé nokkuð skýrt hvað til eignarréttindanna heyrir. Með því að leggja til að þau ákvæði vatnalaganna frá 1923 sem snerta þessi mál standi óbreytt erum við í rauninni með allskýra réttarstöðu að því leyti. Við erum með dómaframkvæmd og túlkun fræðimanna í næstum því 90 ár á þeim atriðum þannig að það er allskýrt og ég er því jákvæðari gagnvart þessu frumvarpi, miklu jákvæðari. Mér finnst það vera mjög veigamikið atriði og ég er ánægður að sjá að þeim sjónarmiðum er haldið til haga í frumvarpinu.

Í ljósi forsögunnar er ekki óeðlilegt að farið verði afar vandlega yfir þetta í iðnaðarnefnd og í þinginu, bæði hvað varðar túlkun þeirra atriða sem vikið var að og varða eignarréttindin sjálf og eins þá kafla sem telja má nýja. Ég hef ekki forsendur í þessari umræðu til að fara út í þá þætti sem lúta að stjórnsýslu eða öðru þess háttar en árétta bara að nauðsynlegt er að fara vel í það. Ég verð að segja að miðað við ýmsar hugmyndir sem uppi hafa verið í umræðum um vatnsréttindi á undanförnum árum er ég ánægður með þá niðurstöðu sem birtist í þessum frumvarpstexta og vona að hún haldist í gegnum meðferð málsins í þinginu.

Ég ætla ekki að fara langt aftur í málinu. Ég ætla að neita mér um að rifja upp deilurnar sem tengdust lagasetningunni 2006 sem voru gríðarmiklar og oft og tíðum að sumu leyti byggðar á misskilningi, að mínu mati, eða því að menn vildu setja hlutina í miklu pólitískara ljós en efni stóðu til. Ég ætla neita mér um það að þessu sinni. Hins vegar verð ég að segja að miðað við þá forsögu sem fyrir hendi er í málinu held ég að þeim atriðum sem eru kannski viðkvæmust í málinu og snúa að eignarréttindunum sé ágætlega fyrir komið í þessu frumvarpi.

Ég tel, eins og ég sagði, að mikilvægt sé að fara vel yfir frumvarpið. Þetta er grundvallarlöggjöf á sviði vatnsréttinda sem getur haft verulega þýðingu þannig að lagasetningin er í sjálfu sér ekkert áhlaupsverk, jafnvel þótt margir þættir haldist óbreyttir frá gildandi rétti. Ég held því að hv. iðnaðarnefnd verði að fá góðan tíma til að fara yfir málið og fjalla gaumgæfilega um þessa þætti. Eins vona ég, verði niðurstaðan úr því máli farsæl, að við verðum komin með lagasetningu sem stendur til langs tíma og ekki verði hringlað með í náinni framtíð. Mér finnst raunar af greinargerðinni með frumvarpinu að það sé hugsunin, eins og segir í almennum athugasemdum að það sé mat frumvarpshöfunda að um þá skipan sem felist í frumvarpinu eigi að geta orðið áframhaldandi sátt þó að vissulega sé vísað til þess að smíði nýrrar heildstæðrar vatnalöggjafar komi í fyllingu tímans, en það er reyndar setning sem ég veit ekki alveg hvernig á að túlka.

Verði þetta að lögum vona ég að það verði ekki hringlað mikið með þau meginatriði sem þar koma fram. Undir þeim formerkjum held ég að sé ástæða til að taka þessu frumvarpi með jákvæðum huga þó að auðvitað sé rétt á þessu stigi við 1. umr. málsins að árétta það að vandlega verði farið yfir það á síðari stigum.