139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og aukinn hagvöxtur.

[14:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við fáum nú þær fréttir úr fjármálakerfinu að sú hraðbraut sem fyrirtækin í landinu áttu að fara í hjá fjármálafyrirtækjunum sé engin hraðbraut, heldur að það gangi hægt og rólega (Gripið fram í: Hringtorg.) að endurskipuleggja — kannski er það hringtorg eins og hér er sagt í frammíkalli — fjárhag fyrirtækjanna og koma þeim í hendur framtíðareigenda sinna með endurskipulagðan efnahagsreikning. Þetta er mjög alvarlegt vegna þess að þetta er einn af þeim þáttum sem hér þurfa að gerast til að koma hagvexti aftur í gang og laða fram fjárfestingu.

Maður fer að velta fyrir sér þegar stjórnarflokkarnir virðast fyrst og fremst uppteknir í innbyrðis ágreiningi um einstök mál eins og Evrópusambandið, Icesave-málið sem síðan var undirstrikað í gær og endurtekið af hv. þm. Lilju Mósesdóttur að hefði verið lagt fram án stuðnings Vinstri grænna á sínum tíma, hvort ríkisstjórn sem vill kenna sig við velferð verður ekki að einhenda sér af öllu afli í atvinnuuppbyggingu.

Ég er fyrir löngu orðinn úrkula vonar um að þessi ríkisstjórn muni leysa það verkefni. Án atvinnu verður engin velferð, án atvinnu munu heimilin ekki geta staðið í skilum, án atvinnuuppbyggingar og nýrrar fjárfestingar munu fyrirtækin ekki geta risið undir þeim skuldum sem á þeim hvíla og þau munu ekki ráða til sín nýtt fólk. Vilji ríkisstjórn vinna að velferð í þessu máli á hún að setja atvinnuna í forgang.

Ég vil bera það undir hæstv. fjármálaráðherra, því að nú er hann knúinn svara af aðilum vinnumarkaðarins um það, hvernig ríkisstjórnin sem nú situr ætlar að vinna að auknum hagvexti í þessu landi. (Forseti hringir.) Hvaða svör fá aðilar vinnumarkaðarins sem við getum fengið að heyra í þessum sal? Öll þjóðin er að hlusta.