139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og aukinn hagvöxtur.

[14:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að það er æskilegt við aðstæður eins og okkar að geta dregið úr launatengdum kostnaði og gert það sem ódýrast að skapa ný störf og ráða fólk. Það er engin speki, það þarf ekki doktorspróf í hagfræði til að skilja það. Við vitum þetta öll og horfumst í augu við það. Hitt er líka staðreynd að við getum ekki rekið ríkissjóð með tugmilljarða eða hundruða milljarða halla í mörg ár. Það endar með ósköpum. Þar erum við líka sammála þannig að það verður að finnast jafnvægi milli þessara sjónarmiða, aðgerða okkar til að ná sjálfbærni í opinberum fjármálum og skapa atvinnulífinu sem hagstæðust skilyrði. Það þarf m.a. að skapa skilyrði til að raunvextir geti lækkað enn frekar. Hvað þarf til þess? Það þarf að eyða ýmiss konar óvissu sem enn hefur gengið brösuglega og ég ætla ekki einu sinni að nefna það mál sem ég er sérstaklega með í huga í þeim efnum.

Varðandi skattana að öðru leyti liggur það fyrir að almenn skatthlutföll á atvinnulíf á lögaðila á Íslandi eru í lægri kantinum innan OECD (Forseti hringir.) þannig að skattumhverfi fyrirtækja á Íslandi bæði mælt í skilningnum launatengdur kostnaður og almenn skatthlutföll er hagstætt í öllum alþjóðlegum samanburði. (Gripið fram í: Prófa að hætta þessu.) (TÞH: Hann vex …)