139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

staða ríkisstjórnarinnar.

[14:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að hæstv. utanríkisráðherra hafi í viðtölum í dag og í gær fagnað því að tveir hv. þingmenn hafi sagt sig úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hæstv. utanríkisráðherra vildi meina að með þessu móti styrktist jafnvel staða ríkisstjórnarinnar vegna þess að línur væru þar með að skerpast. Er hæstv. fjármálaráðherra sammála þessu mati hæstv. utanríkisráðherra? Telur hann að línur séu að skerpast og þá á hvaða hátt? Eru þær að skerpast á þann hátt að ríkisstjórnin sé í betri stöðu til að framkvæma allt það sem þingmennirnir tveir háttvirtir gagnrýndu, í betri stöðu til að halda áfram stuðningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða stefnu hans á þann hátt sem henni hefur verið fylgt, vinna að fjárlagagerð á þann hátt sem ríkisstjórnin hefur gert þrátt fyrir Icesave-málið, vinna að umsókn að Evrópusambandinu á þann hátt sem þessi ríkisstjórn hefur gert eða taka á skuldamálum heimila og fyrirtækja og bankamálum á þann hátt sem ríkisstjórnin hefur gert fram að þessu, gagnrýnt var af þingmönnunum tveimur og fagnað af hæstv. utanríkisráðherra? Með brotthvarfi þeirra skerptust línurnar og þá væri sem sagt væntanlega auðveldara að gera hlutina eins og ríkisstjórnin hefur gert fram að þessu.