139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

breytingar í grunn- og leikskólum Reykjavíkur.

[14:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í ljósi síðustu orða er býsna freistandi að fara að ræða hér almennt um ástandið á stjórnarheimilinu. Ég ætla samt að spara mér það í þetta skipti en eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem jafnframt er þingmaður Reykjavíkur, um fyrirhugaðar breytingar á grunn- og leikskólum í Reykjavíkurborg. Eins og þekkt er hafa þær hugmyndir sem upp hafa komið hjá borginni valdið gríðarlegri reiði hjá foreldrum grunnskólabarna og óöryggi hjá krökkunum sjálfum. Ég fór sjálfur á fund í mínum gamla grunnskóla, Hólabrekkuskóla í Breiðholti, í gærkvöldi og fékk þar beint í æð tilfinningu fyrir því hvað fólkið í borginni er reitt og ósátt við þessar fyrirhuguðu breytingar. Þúsundir undirskrifta sem safnast hafa á vefnum segja auðvitað sömu sögu.

Nú má ekki skilja mig þannig að ég sé á móti því að menn spari í rekstri skólanna en það þarf þá að gera í samráði við þá sem í hlut eiga, bæði foreldra, nemendur og skólastjórnendur, og það verður að vera eitthvert vit í þeim sparnaði. Það þýðir ekki að menn eigi að reyna að ná 0,6% sparnaði út á þau býtti að lítil börn þurfi að ferðast á milli hverfa í borginni til að komast í skólann sinn.

Hæstv. menntamálaráðherra er æðsti yfirmaður menntamála í landinu og þingmaður Reykvíkinga, eins og ég sagði áðan. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi einhverja skoðun á þeim hugmyndum sem fram hafa komið og eru svo umdeildar. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að þessar hugmyndir nái fram að ganga. Ef svo er, hvað ætlar hæstv. ráðherra að (Forseti hringir.) gera til að leysa þá stöðu sem upp er komin? Það er rík krafa hjá Reykvíkingum að eitthvað verði gert. (BirgJ: Heyr, heyr.)