139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

breytingar í grunn- og leikskólum Reykjavíkur.

[14:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi fór yfir sparnaðarhugmyndir í borgarstjórn Reykjavíkur um grunn- og leikskóla. Reykjavíkurborg hefur sérstaklega sent þær hugmyndir til umsagnar í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Ég vil hins vegar taka fram, af því að hv. þingmaður spyr um mína skoðun, að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur að sjálfsögðu ákveðnu hlutverki að gegna, ekki bara gagnvart Reykjavíkurborg heldur gagnvart öllum þeim sveitarfélögum sem fara með málefni leik- og grunnskóla, hefur þar eftirlit með því að lögum sé fylgt og réttindi nemenda varin. Ég lít svo á að það eigi við um Reykjavíkurborg sem og önnur sveitarfélög þó að svo vilji til að sú sem nú gegnir embætti menntamálaráðherra sé líka þingmaður Reykvíkinga.

Sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu talsvert og mikið sjálfstæði um það hvernig þau haga málum sínum. Út frá þeim hugmyndum sem hafa verið kynntar liggur auðvitað fyrir líka að í samræmi við lög um leikskóla og grunnskóla hafa sveitarfélög talsvert sjálfstæði um það að sameina rekstur grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila eins og hugmyndir Reykjavíkurborgar ganga út á. Ég lít svo á að það skipti mestu máli að þessar hugmyndir séu í samræmi við lög og lagaumhverfi. Sveitarfélögin hafa umtalsverðar heimildir og má segja að þegar grunnskólalögin voru samþykkt 2008 hafi sú heimild verið höfð mjög opin, kannski opnari en allir voru sammála um af því að fólki fannst mikilvægt að þetta gæti nýst í ýmsum tilgangi.

Hins vegar eigum við eftir að fara nákvæmlega yfir tillögurnar og við munum skila umsögn okkar í lok þessarar viku. Það liggur fyrir auðvitað, eins og hv. þingmaður sagði, að tillögurnar hafa verið gagnrýndar talsvert, ekki aðeins hugmyndirnar heldur líka aðferðafræðin og aðdragandinn. Þar erum við kannski komin út fyrir ramma laga og reglna og að aðferðafræðinni við kynningu og undirbúning þessara tillagna.