139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

álver við Bakka.

[14:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það stendur svo sannarlega ekki á mér og ég tel að ég hafi stigið mörg stór skref í þá átt að slíðra sverðin hvað varðar þetta svæði og atvinnuuppbyggingu þar.

Það var ágætisutandagskrárumræða hér um daginn um þessi mál, um uppbygginguna í Þingeyjarsýslu, og það var mikill samhljómur með þingmönnum úr öllum flokkum varðandi þá uppbyggingu og ég er gríðarlega bjartsýn á að senn muni draga til góðra tíðinda hvað þessi mál varðar.

Ég var fyrir norðan á fundi með sveitarstjórnarmönnum þeirra sveitarstjórna í Þingeyjarsýslum sem að þessu máli koma á föstudaginn, í Aðaldalnum, í Ýdölum. Það var gríðarlega góður fundur og við erum að vinna núna að því að setja niður verkefnin sem fram undan eru. Það góða samkomulag sem um verkefnið hefur ríkt hefur byggst á viljayfirlýsingum millum sveitarstjórnanna og ríkisstjórnarinnar og það er ætlun okkar að gera nýja viljayfirlýsingu vegna þess að hún rann út 1. mars. Það er ætlun okkar að endurnýja hana og þá byggja hana á þeim verkefnum sem fram undan eru sem við þurfum að vinna til þess að koma málinu í höfn. Okkar bíður mikið verk við að undirbúa samfélagið fyrir stórfellda atvinnuuppbyggingu og eins og ég segi er ég gríðarlega bjartsýn á að þarna muni draga til tíðinda innan skamms.

Landsvirkjun á í viðræðum við Alcoa eins og líka aðra aðila, hún á ekki bara í viðræðum við Alcoa heldur aðra aðila líka. Það er orðin mikil eftirspurn eftir orkunni þarna á svæðinu. Landsvirkjun er líka með einbeittan vilja til þess að selja orkuna til atvinnuuppbyggingar inn á svæðið. Það skiptir gríðarlega miklu máli, ekki bara fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni og fyrir norðan heldur líka fyrir þjóðarhag allan. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, nú stendur lokahnykkurinn í þessu máli fyrir dyrum og við þurfum öll að leggjast á eitt til þess að svo megi verða, landi og þjóð til heilla.