139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

staða ríkisstjórnarinnar.

[14:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita gerðust þau tíðindi í gær að tveir liðsmenn ríkisstjórnarinnar kusu að hverfa frá stuðningi sínum við hana. Við þekkjum það af gamalli reynslu að það er oft háttur manna við þessar aðstæður að reyna að gera lítið úr áhrifum þess þegar klofningur sýnir sig í stjórnmálaflokkum og í sjálfu sér er það á margan hátt skiljanlegt. Ég held að í ljósi þess hafi hæstv. fjármálaráðherra, formaður VG, farið í útvarpsviðtal í morgun þar sem hann reyndi að fylgja þeirri hefðbundnu línu. En hinn gamli vígamaður gat nú ekki alveg stillt sig og sagði t.d. aðspurður þegar hann vék að öðrum þessara hv. þingmanna að hann hefði kosið að bregðast við gagnrýninni á þann hátt að hann hefði haft í huga hið gamla máltæki að sá vægði sem vitið — og lauk svo ekki setningunni. [Hlátur í þingsal.]

Nú gerðist það í hádeginu í dag að til máls tóku mjög skarpir stjórnmálaskýrendur, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, sem sagði að þessir atburðir veiktu ekki ríkisstjórnina, og hæstv. utanríkisráðherra, sömuleiðis skarpur stjórnmálaskýrandi, sem kvað enn fastar að orði og sagði að þetta væri til þess fallið að styrkja ríkisstjórnina.

Nú skal ég játa að þetta er ofvaxið mínum skilningi (Utanrrh.: Spurðu mig þá.) og vildi þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann gæti ekki sagt álit sitt á þessari stjórnmálaskýringu um það að þegar tveir mætir þingmenn hverfa úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar sé það til þess fallið að styrkja ríkisstjórnina. Er það kostur þar með? Er það betra? Er það til þess fallið að efla ríkisstjórnina þegar tveir þingmenn kjósa að hverfa frá stuðningnum og ríkisstjórnin nýtur ekki lengur stuðnings þeirra þingmanna?