139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

staða ríkisstjórnarinnar.

[14:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég var hér í þingsalnum þegar hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en engu að síður fannst mér ástæða til að fylgja þessu máli eftir. Mér fannst mat hæstv. fjármálaráðherra á þessari óvenjulegu stjórnmálaskýringu hæstv. utanríkisráðherra liggja dálítið eftir. Nú skildi ég hins vegar svar hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði að hann léti það öðrum eftir að leika sér í pólitískum loftfimleikum og ég held að hæstv. utanríkisráðherra hljóti að a.m.k. að taka þessi orð til sín því að það getur ekki verið vísað til annars.

Ég er ekki með nokkrum hætti að gera lítið úr þessu máli eða tala það upp, ég er einfaldlega að vekja athygli á þessu, ekki vegna atburðarins sem slíks heldur vegna þess að mér þótti það mjög merkilegt og vekja miklar spurningar þegar tveir ráðherrar á sama tíma, núna í hádeginu, kusu að koma fram með svona nýstárlega stjórnmálaskýringu um mál sem að mínu mati (Forseti hringir.) er mjög alvarlegt bæði fyrir ríkisstjórnina og auðvitað fyrir þjóðina.