139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[14:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sparisjóðakerfið fór illa laskað út úr fjármála- og bankakerfinu, kreppunni sem reið hér yfir haustið 2008. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ég ætla ekki að fjölyrða um. Það er hluti fortíðarinnar sem nú hefur verið ákveðið að rannsaka frekar. Í þessari umræðu skulum við hins vegar hyggja að framtíðinni, hvernig við viljum að sparisjóðakerfi framtíðarinnar líti út. Það er hið mikla verkefni okkar.

Margoft hefur komið fram á Alþingi ríkur vilji til þess að hér verði við lýði um ókomin ár öflugt net sparisjóða sem gegni því mikilvæga hlutverki sem þeir hafa sinnt í gegnum tíðina, oftast með ágætum. Þetta kom strax fram við setningu neyðarlaganna 2008 og samþykkt Alþingis um að leggja til hliðar umtalsvert fé til að stuðla að endurreisn sparisjóðanna. Því miður tafðist sú vinna öll og enginn vafi er á því að sú töf olli miklu tjóni í sparisjóðunum sem við súpum núna seyðið af.

Nú blasir hins vegar við okkur tiltekinn veruleiki sem er þessi: Hér er til staðar sparisjóðakerfi sem er brot þess kerfis sem var áður. Uppbygging sparisjóðanna miðast við aðra starfsemi en nú er. Það er því augljóst að við þurfum að marka stefnu um það hvernig best verður að málum staðið. Það fyrsta sem þarf að liggja fyrir er hvort við viljum að hér verði áfram sparisjóðir sem geta sinnt því hlutverki sem þeir voru stofnaðir til, að verða bakhjarlar í byggðunum úti um landið, eftir atvikum líka á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er spurningin sem við þurfum að svara á hinum pólitíska vettvangi. Við hljótum að hafa á því skoðun hvernig við viljum að megindrættir fjármálakerfisins líti út þótt það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að vera með puttana ofan í beinum rekstrarlegum ákvörðunum. Við eigum ekki að láta þessa stefnumótun embættismönnunum einum eftir, með fullri virðingu fyrir þeim. Úr hinni ósnertanlegu Bankasýslu hafa t.d. komið yfirlýsingar um framtíðarfyrirkomulag sparisjóðakerfisins sem hafa ekki allar verið mjög skynsamlegar eða heppilegar. Það er mun heppilegra að stefnumótun sparisjóðanna fari fram á þeirra eigin vettvangi.

Enginn vafi er á því að hin bitra reynsla bankahrunsins kennir okkur að það er tvímælalaust kostur að hér sé við lýði fjölbreytt bankakerfi og fjármálastarfsemi. Þar skipta sparisjóðirnir miklu máli. Reynslan kennir okkur líka að stóru bankarnir hafa haft takmarkaðan áhuga á fjármálaþjónustu og bankaþjónustu úti um landið, sennilega vegna þess að staðarþekkingin sem er til staðar í sparisjóðunum á landsbyggðinni hefur ekki verið fyrir hendi í bönkunum. Þannig hafa sparisjóðirnir oftlega komið til skjalanna þegar bankarnir hafa ekki haft áhuga á viðskiptum á landsbyggðinni.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri orðaði þetta vel á aðalfundi Sambands sparisjóða 25. nóvember sl., þegar hann sagði um sparisjóðina, með leyfi virðulegs forseta:

„Þeir auka við fjölbreytnina auk þess sem þeir hafa visst forskot í að meta staðbundin tækifæri og áhættu og njóta trausts og velvilja í heimabyggð. En þá er mikilvægt að sparisjóðirnir takmarki starfsemi sína við þá þætti þar sem þeir eru samkeppnisfærir og fari ekki út í áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi.“

Seðlabankastjóri vakti líka athygli á því að þegar öll fjármálafyrirtæki eru eins verði eðli áhættunnar líka það sama hjá þeim öllum og tiltekin áföll því líklegri en ella til að fella kerfið í heild. Þetta, sagði seðlabankastjóri, var eitt meginvandamálið við bankakerfið hér á landi fyrir hrun og undir þessi orð hans má taka afdráttarlaust.

Það breytir því ekki að sparisjóðirnir standa núna frammi fyrir nýjum veruleika. Þeir þurfa að laga starfsemi sína að honum. Það er t.d. ljóst að sparisjóðirnir njóta ekki lengur sparisjóðabanka sem bakhjarls. Þangað sóttu þeir erlenda lánsfjármögnun og bankinn tók oftlega þátt í því með hinum staðbundnu sjóðum að annast fjármögnun stærri verkefna, svo sem á sjávarútvegssviðinu sem kröfðust meira fjármagns. Sparisjóðirnir ráku líka margháttaða aðra sameiginlega starfsemi sem nú er bara svipur hjá sjón. Nú þarf að finna nýjar lausnir til að sparisjóðirnir geti sinnt atvinnustarfsemi í byggðunum þótt það verði í eitthvað breyttum mæli, ella blasir við fullkomið tómarúm sem við getum ekki treyst á að hinir hefðbundnu viðskiptabankar fylli upp í.

Það má vel hugsa sér að sjóðirnir verði í vaxandi mæli svæðisbundnari en þeir hafa verið, starfssvæði þeirra verði stærri en tíðkaðist forðum. Það er hins vegar ástæða til að vara við hugmyndum um að sameina sparisjóðina í einn sjóð. Þar með mundu þeir tapa sérstöðu sinni sem seðlabankastjóri rakti og ég gerði að umtalsefni. Þess utan geta stjórnvöld alls ekki mælt fyrir um neitt slíkt. Gleymum því ekki að þrír sparisjóðir með sterkan efnahag eru starfandi og hafa ekki notið neinnar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu frá hinu opinbera. Það væri því útilokað að stjórnvöld eða stofnanir á þeirra vegum gætu ráðskast með hag þessara sjóða þótt ríkið hafi sem stendur yfirburðastöðu í mörgum öðrum sparisjóðum.

Nú er líka eðlilegt að farið verði að huga að því að móta stefnu sem felur í sér að ríkið losi um eignarhald sitt í sjóðunum sem allra fyrst. Það getur auðvitað ekki gengið til lengdar að ríkið sé ráðandi stofnfjáreigandi í stórum hluta sparisjóðakerfisins. Það er í sjálfu sér í mótsögn við þá hugmynd sem sparisjóðirnir eru stofnaðir í kringum.