139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[14:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Á stundum mætti halda að eitt helsta vandamál íslensks fjármálakerfis sé og hafi lengi verið of margir litlir og illa reknir sparisjóðir. Það getur því bara dregið úr kerfisáhættu að renna eins og einu sparisjóðakerfi inn í stóru bankana þrjá. Þetta þýðir að mínu mati þann skort á stefnumörkun, greiningu og sýn á uppbyggingu fjármálakerfisins sem hefur einkennt starf stjórnvalda við endurreisn bankanna. Það sýnir einnig mikla skammsýni og skilningsleysi á mikilvægi sparisjóðanna og annarra fjármálastofnana sem byggja á hugmyndafræði, samvinnu og sjálfbærni.

Sparisjóðir eru náskyldir samvinnufélögum, gagnkvæmum tryggingafélögum, sjálfseignarstofnunum og frjálsum félagasamtökum. Hugsjónir samvinnunnar eru að fólk nái meira árangri með því að vinna saman en hvert í sínu horni, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, að vinnubrögð séu lýðræðisleg og að hvatt sé til reksturs félaga sem hafi hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi fremur en bara að hámarka hagnað. Hins vegar villtust samvinnumenn einhvers staðar af leið og töpuðu sér í græðgi hins íslenska samfélags. Víða var unnið markvisst að því að eyða sparisjóðum og samvinnufélögum. Fé án hirðis varð að skammaryrði þegar eignir og sjóður sem stóðu að baki rekstrinum skiluðu ekki beinum hagnaði í vasa eigendanna.

Við þurfum að snúa af þessari braut. Við þurfum að byggja upp mátulega stórt bankakerfi þar sem við getum leyft fjármálafyrirtækjum okkar að fara í gjaldþrot ef sú staða kemur upp. Hluti af því er öflugt sparisjóðakerfi. Við þurfum samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði í stað fákeppni. Hluti af því er svo sannarlega öflugt sparisjóðakerfi. Við þurfum fjölbreytt eignarhald og rekstrarform sem skiptist á milli ríkisins, einkaaðila og samfélagslegs eignarhalds. Hluti af því er öflugt sparisjóðakerfi. Við þurfum fjármálafyrirtæki sem þjóna bæði dreif- og þéttbýli, landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Þar tel ég að nýir, endurreistir og sjálfbærir sparisjóðir og lánasamvinnufélög geti leikið lykilhlutverk.