139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[15:01]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sparisjóðirnir hafa löngum verið besti spegillinn í fjármálum hversdagslífsins í landinu. Stóru bankarnir hafa löngum litið á landsbyggðina sem afgangsstærð. Þetta eru staðreyndir. Hin auknu umsvif stóru bankanna á síðustu tíu árum, frá 2000, hafa verið gríðarleg á sama tíma og fjöldi og umsvif sparisjóðanna hafa verið nánast óbreytt. Arion banki einn hefur fjölgað starfsmönnum úr 600–700 í 1.300, var á miklu blússi síðasta árið og samt eru bankarnir of stórir. Stjórnvöld hugsa ekki neitt um að keyra þetta niður, hafa aðhald og aga í þessu efni.

Sparisjóðirnir eiga að styrkja nærumhverfið á landinu öllu. Þannig hafa þeir verið reknir. Sparisjóðurinn í Keflavík tapaðist, það var stórslys og ríkisstjórnin átti að hafa miklu meiri metnað í afgreiðslu þess máls en að gefa þann banka til höfuðborgarsvæðisins.

Fram undan er harðvítug sjálfstæðisbarátta, að því er virðist, og kannski er hún af því góða. Við vorum orðnir útlendingar, það var það eina sem var fínt, sperrtumst um allan heim á flugvélum og færiböndum með glitblöðrur út og suður og klappstýran var sjálfur forseti Íslands. Hefjum aftur gömlu gildin, virðum grunntón sparisjóðanna og fylgjum því eftir og byggjum það upp þannig að menn láti sér ekki detta í hug að Íslendingar geti bjargað heiminum. Við þurfum ekki útlendu sósurnar, Evrópusambandið og fylgifiskana sem hafa glefsað í Ísland öldum saman til að kokgleypa landið. (Gripið fram í.) Við þurfum íslenskan tón og íslenskan takt, (Forseti hringir.) það skiptir mestu máli og þar eru sparisjóðirnir verðugir til að byggja upp og stuðla mest (Forseti hringir.) að sjálfstæði lítilla sparisjóða en þó metnaðarfullra.