139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[15:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að standa í þeim sporum að ræða um örlög sparisjóðanna og þá útreið sem þeir hafa fengið á undanförnum árum í kjölfar efnahagshrunsins. Þeir eru aðeins brot af því sem áður var eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson rakti í upphafsræðu sinni. En þannig er það í dag. Hlutverk sparisjóðanna hefur alla tíð verið annað en annarra bankastofnana, þeir hafa átt að vera samfélagslegar stofnanir fyrst og síðast í þeim tilgangi að skila nærsamfélagi sínu hagnaði, en ekki hagnaði til einstakra tiltekinna eigenda eins og hér hefur komið fram. Það var ekki í þeim anda sem sparisjóðirnir voru stofnaðir á sínum tíma. Hugmyndafræðin þegar þeir voru reknir inn á þann vettvang íslenskrar fjármálastarfsemi sem að lokum leiddi þá flesta hverja til falls í kjölfar bankahrunsins var ekki sú sem upphaflega var stofnað til. Það má því segja að fall íslenska fjármálakerfisins hafi ekki leitt til falls þeirrar hugmyndafræði eða hugsjóna sem sparisjóðirnir byggðu á. Sú hugmyndafræði stendur enn fyrir sínu.

Sparisjóðirnir hafa alltaf notið mikils trausts heima í héraði og almennt meðal landsmanna og ef ég man rétt er núna sjöunda árið í röð sem þeir mælast sem sú fjármálastofnun sem viðskiptavinir telja að þeir fái hvað mest út úr og sem nýtur hvað mests trausts í íslensku fjármálalífi.

Eins og fram hefur komið stendur yfir vinna við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins á vegum stjórnvalda, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis með þátttöku sparisjóðanna sjálfra, þeirra sem eftir standa. Það er verið að leita leiða til að endurreisa þá, ef má nota það orð aftur, koma í veg fyrir að þeir falli þá endanlega. Vonandi heyrir þá þetta sparisjóðakerfi ekki sögunni til og vonandi tekst að gera úr því hráefni sem eftir er einhverja mynd af sparisjóðakerfi að nýju. Það er svo sannarlega (Forseti hringir.) vilji til þess meðal almennings í landinu og það er pólitískur vilji til þess sömuleiðis.