139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[15:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er gagnlegt að hyggja að fortíðinni en við megum ekki festa okkur of mikið í henni. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvers vegna sparisjóðirnir féllu. Ég ætla að fullyrða eitt, það eru margháttaðar ástæður fyrir falli þeirra og það eina og sama á alls ekki við um þá alla. Við skulum gæta að því.

Það er heldur ekki nýtt að bankarnir í landinu telji sparisjóðina óþarfa. Þannig hefur það verið í gegnum tíðina. Bankarnir hafa hvað eftir annað lagt til atrennu við sparisjóðina og þannig verður það í framtíðinni. Það sem þarf að koma út úr þessari umræðu er mjög skýr og afdráttarlaus afstaða okkar í þinginu um að við viljum að hér sé við lýði öflugt sparisjóðakerfi sem starfi sem víðast um landið. Það yrði skrumskæling á sparisjóðaforminu ef niðurstaðan yrði sú að settur yrði á laggirnar einn sparisjóður yfir landið allt. Það er ekki viðunandi niðurstaða að mínu mati.

Ég tefldi því fram áðan að það kynni að vera skynsamlegt fyrir okkur í ljósi þeirrar uppstokkunar sem er fram undan hjá sparisjóðakerfinu að sparisjóðirnir væru á einhvern hátt svæðisbundnir og næðu yfir stærri starfssvæði en þeir gera í dag. Það er nokkuð sem mér finnst sannarlega koma til álita að við skoðum sérstaklega. Ég spyr hæstv. ráðherra sérstaklega um þetta mál vegna þess að ég saknaði þess að ekki kæmi nægilega skýrt fram frá hæstv. ráðherra hvort hann teldi yfir höfuð að honum bæri að vinna að því að hér yrði til staðar öflugt, endurreist sparisjóðakerfi.

Sparisjóðirnir gegna gríðarlega miklu hlutverki. Þeir hafa mikið forskot vegna staðarkunnáttunnar innan þessara einstöku sparisjóða og það er gífurlega mikilvægt, ekki síst fyrir hinar dreifðu byggðir, að sparisjóðakerfið sé til staðar. Þá þarf hins vegar að mynda einhvern bakhjarl fyrir sjóðina. Sá bakhjarl er ekki til staðar í dag. Sparisjóðirnir gerðu það á sínum tíma með stofnun Sparisjóðabankans en í ljósi þess að þeir eru veikir í dag er mjög líklegt að til þurfi að koma einhver atbeini (Forseti hringir.) hins opinbera. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að slíkur bakhjarl verði myndaður fyrir (Forseti hringir.) sparisjóðakerfið til að geta tekist á við stærri og veigameiri viðfangsefni í byggðunum í landinu.