139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:16]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Það skjal sem hér liggur fyrir þinginu og hefur að geyma aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum var samþykkt í ríkisstjórn í fyrra, nánar tiltekið í nóvember 2010. Ég óskaði eftir því við forseta Alþingis að kynna það hér og efna til umræðu um það á þinginu því að loftslagsmál eru þau mál sem til lengri tíma munu brenna einna mest á heimsbyggðinni og þar af leiðandi okkur Íslendingum.

Í þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna frá síðasta ári eru loftslagsbreytingar taldar helsta ógn við velsæld jarðarbúa. Hætta er á að á sumum stöðum muni þurrkar aukast, á öðrum flóð. Gróðurbelti munu færast til og skilyrði til landbúnaðar og búsetu geta gjörbreyst vegna náttúrulegra umskipta sem eiga sér engin fordæmi á sögulegum tímum. Varúðarmerkin eru til staðar og fyrirhyggja nauðsynleg ef við ætlum ekki að lenda í hnattrænni vistkreppu.

Við Íslendingar getum ekki verið stikkfrí í loftslagsmálum frekar en aðrar þjóðir og verðum að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna til þróaðra ríkja um að ganga á undan með góðu fordæmi í að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Ísland tekur virkan þátt í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsmál sem nú hafa staðið yfir í nokkur ár en Ísland hefur beitt sér í þeim viðræðum og m.a. lagt áherslu á jafnréttismál og bættar reglur um landnotkun.

Á nýliðnum aðildarríkjafundi í Mexíkó voru tillögur Íslands í þessa veru samþykktar inn í texta sem unnið er með sem drög til samkomulags. Það er lykilatriði í samningaviðræðunum að fyrir liggi áætlun um að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda með trúverðugum hætti heima fyrir. Með framkvæmd þessarar áætlunar eiga íslensk stjórnvöld að geta staðið við líklegar skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi um að draga úr losun fram til 2020. Virk framkvæmd áætlunarinnar kallar hins vegar á lifandi umræðu og víðtæka þátttöku ráðuneyta, sveitarfélaga, atvinnulífs og almennings.

Loftslagsmál varða flest svið samfélagsins svo sem samgöngur, landnotkun, atvinnustarfsemi, efnahag og ímynd Íslendinga á alþjóðavettvangi. Ég tel því þarft að kynna þessa áætlun fyrir þinginu og bjóða upp á umræðu um hana. Aðgerðaáætlunin var unnin af verkefnisstjórn undir formennsku umhverfisráðuneytisins en í henni sátu einnig fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu, samgönguráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Haft var samráð við fulltrúa atvinnulífs, stofnana og félagasamtaka við gerð áætlunarinnar. Drög að áætluninni voru kynnt opinberlega og boðið upp á athugasemdir en það er ljóst að víða er gróska í nýsköpun og hugmyndum að lausnum í loftslagsmálum sem þarf að virkja og efla.

Í áætluninni er lagt til að tíu aðgerðir verði settar í forgang í því skyni að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi fram til 2020. Tvær þessara aðgerða eru almennar hagrænar aðgerðir sem hafa áhrif á fjölmarga geira, uppsetning viðskiptakerfis með losunarheimildir og skattur á losun kolefnis, en aðrar eru töluvert sértækari. Þrjár þeirra eru á sviði samgangna og tvær á sviði sjávarútvegs. Áfram stendur til að stuðla að öflugri bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu og hefja á markvisst átak til endurheimtar votlendis. Þá á að efla rannsóknir og nýsköpun í loftslagsvænni tækni en Íslendingar standa þar framarlega á mörgum sviðum. Einnig eru lagðar til fleiri aðgerðir og áhersla lögð á að reynt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllum helstu geirum.

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist á Íslandi frá árinu 1990 og ljóst er að það er mikið verkefni að snúa þeirri þróun við. Margir munu að auki spyrja hvort það sé raunhæft að hefja markvisst átak til að draga úr losun á tíma efnahagsþrenginga. Ég tel að svo sé og að í rauninni liggi margvísleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga í aðgerðum sem draga úr losun. Áætlunin er unnin á grundvelli ítarlegrar og vandaðrar úttektar sérfræðinga sem m.a. greindu kostnað við mismunandi aðgerðir.

Hagkvæmni er eitt af leiðarljósum áætlunarinnar. Sumar aðgerðir hreinlega borga sig án þess að loftslagsávinningurinn sé tekinn með í reikninginn. Aðrar eru tiltölulega ódýrar og verða hagkvæmar þegar annar ávinningur er reiknaður með, svo sem heilsuspillandi loftmengun og endurheimt gróðurs. Hátt eldsneytisverð íþyngir buddu þjóðarbúsins og margra Íslendinga og flest virðist benda til þess að verðið muni fara áfram hækkandi til lengri tíma þótt sveiflur verði þegar til skemmri tíma er litið. Innlent og loftslagsvænt eldsneyti getur leitt til sparnaðar og meira orkuöryggis. Ríki heims og fyrirtæki leggja æ meira fé til loftslagsvænnar tækni og þeir sem koma með bestu lausnirnar munu uppskera í framtíðinni. Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og þekkingu á því sviði mun vaxa. Marorka og fleiri íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl á sviði loftslagsvænnar tækni hér á landi og eru mörg áhugaverð nýsköpunarverkefni sem gætu fylgt í humátt þar á eftir. Nýsköpun í grænni tækni getur hjálpað Íslendingum bæði efnahagslega og jafnframt í því að efla ímynd landsins.

Ísland hefur að mörgu leyti sérstakar aðstæður þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Rafmagnsframleiðsla og húshitun nýta endurnýjanlega orkugjafa en víðast er notast við kol eða annað jarðefnaeldsneyti til þess. Á hinn bóginn er losun frá samgöngum á mann nær hvergi jafnmikil í heiminum og á Íslandi. Ísland á því meiri möguleika á að draga úr losun í samgöngum en flest önnur ríki. Jafnframt eigum við meiri möguleika á að binda kolefni úr andrúmslofti en flest ríki.

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt sér vel þessar sérstöku aðstæður og kynnt þær vel í samningaviðræðum. Á sínum tíma fékk Ísland því framgengt að landgræðsla telst leyfileg loftslagsaðgerð og á nýliðnu aðildarríkjaþingi var samþykkt orðalag tillögu Íslands sem heimilar endurheimt votlendis í sama skyni. Þessi sérstaða á mörgum sviðum þýðir þó ekki að Ísland eigi ekki að taka á sig ábyrgð á loftslagsvandanum eins og önnur þróuð ríki. Losun á mann er hér meiri en að meðaltali hjá Evrópuþjóðum og meiri en að meðaltali hjá ríkjum OECD. Við þurfum því að bregðast við því og þar verða stjórnvöld að ganga fram með góðu fordæmi. Við þurfum hins vegar að grunda aðgerðir okkar vel og við getum ekki farið að öllu leyti eftir dæmi annarra ríkja sem búa við ólíkar aðstæður.

Hér er byggt á ítarlegri sérfræðigreiningu á möguleikum Íslands til að minnka losun eins og áður er nefnt. Tíminn leyfir ekki að ég tíundi í smáatriðum allar þær aðgerðir sem fyrirhugað er að ráðast í en ég vil benda á að sumar lykilaðgerðanna sem hér eru nefndar eru þegar komnar á skrið. Ég vil þar sérstaklega nefna breytt kerfi skatta og gjalda á eldsneyti og bíla sem virðist þegar vera byrjað að hafa áhrif. Meðal annars hefur notkun metans sem eldsneytis aukist en það er innlend afurð og kemur í stað innflutts jarðefnaeldsneytis og sparar þannig líka gjaldeyri. Þessi þróun er jákvæð bæði fyrir fjárhag einstaklinganna og fyrir loftslagið.

Í samgöngum felast margvísleg önnur tækifæri af svipuðu tagi. Bættar almenningssamgöngur og betri aðstaða fyrir hjólandi og gangandi eru jákvæðar fyrir loftslagið, heilsu og loftgæði, en varðandi samgöngur og marga aðra þætti má ekki líta á lausn á loftslagsvandanum sem íþyngjandi mál heldur eru þar margvíslegar aðgerðir sem skila margþættum árangri og fela í sér bein tækifæri.

Önnur verkefni ættu að geta komist í gang fljótlega og það er ánægjulegt að víða er áhugi og frumkvæði í atvinnulífinu og hjá almenningi sem stjórnvöld þurfa að virkja. Mikill áhugi er t.d. hjá fiskmjölsframleiðendum að nota rafmagn í stað olíu við mjölframleiðslu og hafa íslensk fyrirtæki raunar verið brautryðjendur í þeim efnum á heimsvísu. Athuganir sýna að rafvæðing getur borgað sig á nokkrum árum en það eru hins vegar ýmis ljón í veginum við að auka hana enn, svo sem það að dreifikerfið annar ekki rafkötlum á öllum stöðum á álagstímum. Þetta er verkefni sem stjórnvöld og atvinnulífið þurfa að vinna að í sameiningu.

Efnahagskreppan mun vissulega hafa áhrif á suma þætti áætlunarinnar og m.a. hefur verið dregið úr framlögum til skógræktar og landgræðslu. Til lengri tíma þarf að vinna vel og skipulega að þeim þáttum auk endurheimtar votlendis til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis með breyttri landnotkun. Ég hyggst láta endurskoða lög um skógrækt og landgræðslu, sem eru frá 1955 og 1965, en þar má þá m.a. skoða þátt kolefnisbindingar sem var auðvitað ekki fyrirferðarmikill fyrir hálfri öld eða svo.

Áætlunin er til lengri tíma og markmið hennar eiga að nást á komandi áratug. Tækni, orkuverð og aðstæður breytast og aðgerðaáætlun verður að vera sveigjanleg og lifandi til að bregðast við aðstæðum. Ég hef nýlega skipað starfshóp ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fylgja henni eftir, hrinda aðgerðum í framkvæmd og skila reglulega skýrslum til ráðherra um gang hennar.

Mikil óvissa er á alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsmál sem ég hef nefnt hér fyrr. Einnig eru reglur Evrópusambandsins sem Ísland þarf að innleiða í gegnum EES-samninginn og sumt er enn í mótun. Nauðsynlegt er að endurskoða áætlunina í ljósi aðstæðna þegar línur taka að skýrast í þeim efnum á komandi missirum. Það er hins vegar alveg ljóst að krafa verður áfram gerð til Íslands eins og annarra þróaðra ríkja til að bregðast við loftslagsvandanum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég tel að með þessari ítarlegu og metnaðarfullu aðgerðaáætlun sé Ísland mun betur í stakk búið en áður til að draga úr nettólosun með aðgerðum sem eru í senn metnaðarfullar, hagkvæmar og árangursríkar. Ég bind miklar vonir við þessa áætlun og framkvæmd hennar en ítreka að hún mun ekki ná tilætluðum árangri nema með árvekni og aðhaldi, virkri umræðu í samfélaginu og hér á Alþingi en í raun og veru ekki síst með vitund um samhengi hegðunar og losunar gróðurhúsalofttegunda hjá þjóðinni allri.