139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa skýrslu sem við ræðum nú.

Við lestur skýrslunnar sést að það er óneitanlega lögð mikil áhersla á þær skyldur sem Ísland þarf að taka sér á hendur við að minnka losun hér á landi og það er fínt — það er gott að við setjum okkur markmið. Það er alveg rétt að við eigum að líta til vistvænni orkugjafa eða vistvænni leiða til að komast á milli staða hér á landi.

Það sem mér finnst gott í þessari skýrslu er umræða um framlag okkar til alþjóðlegra loftslagsmála. Ég vildi í framhaldi af orðaskiptum hæstv. ráðherra við hv. þm. Birgi Ármannsson spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að mér finnst það ekki koma hér fram, hvert hæstv. umhverfisráðherra telur framlag okkar vera til alþjóðlegra loftslagsmála. Þrátt fyrir að ráðherra kalli það og kannski ekki sérlega smekklega, subbuskap, er hægt að segja að við séum til fyrirmyndar í öðrum geirum. Mér finnst öll þessi umræða og öll áhersla íslenskra stjórnvalda núna í þessum málum einkennast af því að gert er lítið úr því sem við gerum vel eða það nánast ekki nefnt. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvert hún telji vera framlag Íslendinga til þessara mála.