139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:40]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess að hér er spurt beint um hvort við séum ekki að nýta orku okkar með sjálfbærum hætti þá er náttúrlega svo að hugtakið sjálfbærni hefur því miður verið nokkuð teygjanlegt. Eitt af því sem við verðum að huga að þegar um er að ræða vatnsaflsvirkjanir er að þá þarf í sumum tilvikum að fórna landi, þá þarf að taka ákvarðanir sem fela í sér að landi er fórnað. Varðandi jarðhitavirkjanir hafa verið uppi vangaveltur um hversu sjálfbær sú nýting sé, hvort við séum hugsanlega að ganga á jarðhitageyminn þannig að hvíla þurfi hann um áratugaskeið eftir að hann hefur verið nýttur í einhvern tiltekinn áratugafjölda. Þannig að spurningin um sjálfbærni er vakandi, líka þegar við erum að nýta vatnsafl og jarðvarma. Miklu síður t.d. ef við nýttum vind- eða sjávarfallaorku eða eitthvað slíkt. Það er mikilvægt að við horfum gagnrýnum augum á okkur sjálf í þessum efnum.

Þingmaðurinn veltir því upp að þetta sé sannarlega hnattrænt verkefni og alheimsverkefni og það er auðvitað hárrétt en það sem er á okkar valdi er að draga úr losun á heimavelli. Við þurfum að skoða það í samhengi. Ég sá fyrir einhverjum mánuðum lokaverkefni frá nemanda í visthagfræði frá Háskóla Íslands þar sem dregnar voru fram mjög skuggalegar tölur af vistspori Íslendinga. Ef allir í heiminum lifðu eins og Íslendingar, hversu margar jarðir þyrftum við þá? Sú tala var 21 jörð. Það er skuggalega há tala. Þetta snýst náttúrlega ekki bara um orku heldur ekki síður um það hversu mikið óhóf og neysluhyggju við höfum tileinkað okkur á Íslandi. (Gripið fram í.) Þetta eru mjög áhugaverðar tölur og ég held að við ættum að taka þær til frekari umræðu ef menn efast um þær. Við getum vonandi rætt það frekar.