139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. formanni umhverfisnefndar andsvarið og leiðbeiningarnar um það með hvaða hætti við þingmenn Sjálfstæðisflokksins högum okkar ræðum. Við ræðum málin einfaldlega út frá því plaggi sem liggur fyrir hverju sinni. Ég get upplýst hv. þingmann um að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið neina afstöðu gegn þeim markmiðum sem þarna er lýst. Við hins vegar — (MÁ: Ekki tekið ákvörðun?) Gegn. (MÁ: Gegn, nei.) Við höfum ekki tekið afstöðu gegn þeim markmiðum sem þarna er lýst, á engan hátt. Við höfum hins vegar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sett fram athugasemdir um einstök verkefni, hvernig eigi að nálgast þau, hvaða leiðir við eigum að fara að þessum markmiðum. Ég tel hvort tveggja eðlilegt og heilbrigt að skoðanir séu skiptar í þeim efnum. Það er margt undir í þessu og eins og ég gat um í ræðu minni er alþjóðlegum samningum í þessum efnum ekki lokið. Við vitum ekkert nákvæmlega í dag hverjar skyldur okkar kunna að verða, með hvaða hætti við eigum að ná þeim fram. Það getur vel verið að hv. þingmaður búi yfir einhverri slíkri dýpri vitneskju umfram aðra þingmenn hér á landi en ég bendi á að skýrslan hefst á þeim orðum að það sé líklegt að alþjóðlegar skuldbindingar verði lagðar á okkur í einhverja veru. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður upplýsti okkur þá í sinni ræðu um það með hvaða hætti hann sæi það gerast.