139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þakkir hans um ábendingar mínar til hans og annarra sjálfstæðismanna um umræðuefni hér og háttalag í þeim. Auðvitað skilur hv. þingmaður að markmiðið um 50–75% og markmiðið um 30% er háð ákveðnum skilyrðum af hálfu Evrópusambandsins, og Íslands þar með. Það sem ég er að spyrja um, forseti, er hvort Sjálfstæðisflokkurinn standi þá með okkur hinum í þessum markmiðum að uppfylltum þeim skilyrðum. Eða gerir hann það ekki? Hefur hann ekki tekið afstöðu til markmiðanna, annars vegar um 30% fyrir 2020 ásamt Evrópusambandinu og hins vegar um 50–75% fyrir 2050? Ósköp einfalt. Þingmaðurinn stendur ekki á móti því, hann er búinn að segja það, en stendur hann með því? Er hann með þessu? Styður Sjálfstæðisflokkurinn þetta, hv. þingmaður eða hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í þessu efni? Þetta þurfum við að vita, m.a. vegna þess að báðir þessir hv. þingmenn gefa það í skyn að við eigum að fá einhvers konar undanþágu eða afslátt vegna þess að orkan okkar sé hrein. Orka okkar er tiltölulega hrein, ekki algjörlega en miðað við hin verstu dæmi er hún það, þannig að til einföldunar skulum við segja að hún sé það og þá þurfum við ekki á jafnmiklum kvótum að halda og önnur ríki. Það er okkur sjálfkrafa til framdráttar að nota hreina orku vegna þess að annars mundi hún reiknast inn í þessa kvóta, ef þetta væri olía eða eitthvað þaðan af verra.

Það er mikilvægt að halda jafnvægi í umræðunni og þegar maður ræðir við fulltrúa annarra flokka, hreyfinga og skoðanabandalaga er allra mikilvægast að vita hver afstaða þeirra er í grunnpunktum málsins. Þess vegna spyr ég aftur: Er Sjálfstæðisflokkurinn með markmiðinu 50–75% og er hann með markmiðinu um 30%?