139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:35]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég verð að viðurkenna að eftir Kaupmannahafnarráðstefnuna sem ég fór á, reyndar á eigin vegum, varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Þó að ég reyndi að gera gott úr því máli eins og hægt var jók það ekki tiltrú mína á foringja í löndum heims eða á samstarfið. Þó var auðvitað mögnuð upplifun að vera þarna með fólki úr öllum afkimum jarðar að fjalla um það úrlausnarefni sem er hvað brýnast og sem við eigum öll sameiginlegt, algjörlega sameiginlegt, þó að kannski væri þyngra pundið í orðum sumra, t.d. fulltrúa hinna smáu eyríkja sem standa þarna uppi en eru að hverfa ef ég má taka þannig til orða, en okkar sem verðum seinni. En við verðum aðeins seinni, þetta vandamál er ekki þannig að það hverfi ef maður horfir ekki á það.

Um þann glæp að breyta lofti í markaðsvöru, já, ef maður er á móti markaði er það glæpur, en það er ekki hreina loftið sem er markaðsvaran heldur það að menga. Það er það sem menn verða að gjöra svo vel að borga fyrir. Ef við náum því ekki að koma mengunarbótareglunni í gildi í þessum efnum þannig að það verði hluti af hagkerfinu og að reiknaður sé út sá kostnaður sem í því felst náum við sennilega engum árangri miðað við það hvernig heimurinn er staddur núna. Þess vegna tek ég undir með Al Gore, „put a price on carbon“, við skulum verðleggja kolefnið, koma því inn í markaðskerfið og reyna með verðstýringu að nota eitt af því virkasta sem (Forseti hringir.) framboðs- og eftirspurnarkerfið frá Adam Smith hefur kennt okkur.