139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta eru afar áhugaverðar umræður, Samfylkingin er farin að tala hér fyrir miklum markaðsbúskap. Það er gott, það var kominn tími til því að það hefur vantað. En markaðsbúskapurinn gengur út á að þar sem er framboð eigi að vera eftirspurn, en íslensk stjórnvöld fóru fram með það að henda frá sér eftirspurninni og gáfu frá sér íslenska ákvæðið.

Í byrjun er kannski rétt að rifja það upp með þeim þingmanni sem talaði á undan mér að hann var kominn í hugarleikfimi með það hvað losunarheimild væri. Losunarheimild er hugtak notað yfir inneign í skráningarkerfi og er heimild fyrir losun koldíoxíðs. Ein losunarheimild samsvarar losun eins tonns af koldíoxíði á einu ári. Þannig kemur þetta til.

Það sem hjálpaði okkur hér á sínum tíma varðandi þann kvóta sem við þó fengum í því kerfi sem Evrópusambandið hefur var það að stóriðja sem losar gróðurhúsalofttegundir hefur verið starfrækt frá árinu 1958 hér á landi þegar Sementsverksmiðjan hóf rekstur. Síðan bættist við álverið í Straumsvík 1969 og Íslenska járnblendifélagið 1979. Því voru þessi fyrirtæki búin að vera í rekstri í áratugi þegar viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar var tekið upp og samþykkt. Það gaf hins vegar Íslendingum ansi fáar losunarheimildir því að mengunin var svo ótrúlega lítil á heimsvísu. Þarna vorum við með þrenns konar stóriðju sem var ekki stór og taldi ekki mikið inn í kvótann. Loftslagsheimildakerfið er byggt upp eins og önnur kerfi, t.d. er kvótakerfi í sjávarútvegi hér á landi byggt á veiðireynslu. Í tilfelli íslensku heimildanna var byggt á mengunarreynslu stóriðju. Eins er kvótakerfi í landbúnaði varðandi t.d. mjólkina byggt upp á alveg sama hátt. Það eru viðmiðunarár, þau eru lögð saman, fundin út reikniregla og fundið út hvað viðkomandi bóndi hefur mikinn kvóta. Við komum þarna inn sem þjóð.

Þegar farið var að ræða hvaða lönd ættu að hafa aðild að Kyoto-bókuninni var ljóst að við höfðum svo ofboðslega litla mengunarreynslu að við gátum ekki á nokkurn hátt tekið þátt í Kyoto-bókuninni að því leyti en þá fór af stað Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, sem nú er hv. þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn. Það var ekki mikil trú sem hæstv. utanríkisráðherra hafði á því markmiði að fara af stað með óskir um undanþáguákvæði fyrir Íslendinga. Hann taldi að samningsaðilar okkar mundu hlæja kröfur Íslendinga út af borðinu. Það hefði verið betra til framtíðar að fulltrúar okkar sem fara til samninga við önnur ríki hefðu staðið sig jafn vel og sú sendinefnd sem náði íslenska ákvæðinu inn í þetta losunarheimildarkvótakerfi sem við erum með. Það tókst og loksins þegar undanþáguákvæðið var komið tókst okkur að uppfylla þau skilyrði sem ríki til að geta gengið inn í Kyoto-samkomulagið.

Þetta er forsagan og þessu vill Samfylkingin gleyma. Mér heyrist líka sem Vinstri grænir séu eiginlega búnir að gleyma þessu því að nú hefur þessu verið kastað frá okkur. Ég líkti þessu við nýja auðlind. Við fengum á þessu árabili lykil að alheimsauðlind sem nú á að kasta frá sér.

Ég sló í ræðu minni áðan fram verði á íslenska ákvæðið sem er að vísu ekki til kaups eða sölu. Það var um 15 milljarðar íslenskra króna árið 2007.

Einu rökin í plagginu sem er lagt hér fram, skýrslu umhverfisráðherra um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, fyrir því að ekki er haldið í íslenska ákvæðið eru þau að það sé svo erfitt fyrir Íslendinga að hafa tvöfalt kerfi. Hvernig stendur á því að þetta er notað hér sem rök? Við erum að afsala okkur auðlind sem við fengum upp í hendurnar. Af hverju megum við ekki sem þjóð nýta og framlengja þetta ákvæði? Við ætlum ekkert að veðsetja það. Við ætluðum ekkert að fara að selja það, enda mátti það ekki. Við ætluðum að nýta þetta fyrir atvinnurekstur, sérstaklega í ljósi þess að hér þarf að koma af stað alvöruatvinnu eftir bankahrunið. Nei, vinstri grænir eru svo ofboðslega umhverfisvænir að frekar skal atvinnuleysið flutt út en að nota þau tækifæri og þau vopn sem við eigum innan lands til að koma atvinnulífinu af stað.

Að mörgu leyti er þetta plagg svo sem engin stefnumörkun, þetta er almennt orðað. Jú, það var tekin ákvörðun um að minnka útblástur, eins og fram hefur komið, til að við gætum hangið í skottinu á Evrópusambandinu. Auðvitað er þetta allt saman byggt á því að hið svokallaða alþjóðasamfélag sem vinstri flokkarnir kalla svo uppfylli þau ákvæði sem sett eru á okkur sem þjóð vegna umsóknarinnar sem liggur inni um aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Það liggur alveg klárt fyrir, enda gátum við alveg staðið þarna ein fyrir utan þetta allt saman, haldið okkur við og staðið á undanþáguákvæðinu sem var búið að ná. Að sjálfsögðu, og við áttum að gera það. Þetta er allt frekar skrýtið.

Svo ætla ég að fara aðeins í þetta viðskiptakerfi. Það er gaman að segja frá því að það er ekki eins og að hlýnun jarðar sé mikil. Nú er næstum komið fram í apríl og úti er snjór og frost þannig að góð viðskiptahugmynd fæddist með þessari áætlun um að búa til verðmæti úr loftinu eða þeim rétti að menga, sérstaklega í ljósi þess að þau ríki sem menga mest og spúa hvað mest út í samfélagið eru alls ekki neinir aðilar að þessu kerfi. Svo er alltaf talað eins og við séum nánast einasta fólkið í heiminum, en þá verður hræðilegur jarðskjálfti í Japan. Umhverfishræðslan er frekar geislunin sem kemur frá kjarnakljúfunum en nokkurn tímann hitabreytingar sem eru bara þróun. Það er sannað að á jörðinni hefur hlýnað og kólnað svo lengi sem elstu sögur segja til um, allt frá ísöld. Eins og ég segi er búið að svipta nokkuð hulunni af þeirri ógn sem talin er eiga rætur hér, sérstaklega á Íslandi.

Það sem er líka mjög athugunarvert í þessu sem hefur komið upp síðustu ár er sú gríðarlega spilling sem á sér stað innan þess viðskiptakerfis sem er búið að setja á stofn. Það er spilling við kaup og sölu. Í Danmörku var upplýst um mikla spillingu í því að aðilar sem keyptu og seldu loftslagsheimildir skiluðu t.d. ekki skatti af þeim. Alls staðar þar sem eitthvað svona er er hætta á misnotkun og hæstv. umhverfisráðherra leggur til að við göngum inn í þetta kerfi.

Ég lít svo á að fyrst og fremst sé verið að reyna að ná samkomulagi um eitthvað sem ekki er mikill vilji fyrir að ná samkomulagi um eins og ég fór yfir áðan með Kaupmannahafnarráðstefnuna. Það var ekki vegna umhyggju þeirra aðila sem komu á þá ráðstefnu gagnvart andrúmsloftinu þegar þeir lentu í Kaupmannahöfn á öllum einkaflugvélunum og því öllu saman, það var algjört umferðaröngþveiti á flugvellinum þar, vegna þess að þessir háu herrar láta það ekkert stoppa sig. Það eru einhverjir aðrir sem eiga að menga minna. Það eru einhverjir aðrir sem eiga að sjá til þess að dregið verði úr útblæstri. Þetta fólk heldur áfram að ferðast á sínum einkaþotum og menga fyrir okkur hinum ef það er það sem er verið að tala um. Það er kannski ekki það sem er verið að fjalla um í þessu. Það er verið að búa til verðmæti sem hægt er að veðsetja og það er verið að búa til loft inn í bankana sem svo sannarlega hefur verið bent á og er augljóst mál. Það er m.a.s. búið að stofna banka sem sér um þessar loftslagsheimildir og svo eru þær veðsettar upp í topp. Við þekkjum þetta síðan bankarnir störfuðu hér áður en þeir fóru á hausinn. Tær snilld heitir þetta, tær snilld.

Varðandi þá innleiðingu viðskiptakerfisins með losunarheimildir sem nú er verið að koma með hingað til lands — það er líka væntanlegt frumvarp inn í umhverfisnefnd sem ég sit í — fellur engin starfsemi á Íslandi undir loftslagskerfið í Evrópusambandinu, ekki þar til flugstarfsemin kemur inn 2012. Stóriðjan, ál- og járnblendiframleiðslan, er hins vegar undanþegin þessu í Evrópusambandinu og það eru þær loftslagsheimildir sem við höfum fengið sem við erum búin að vera að nota. Það á að setja þetta allt saman undir einn hatt árið 2013 því að Evrópusambandið hefur notað loftslagsheimildirnar t.d. í pappírsverksmiðjur. Samt var íslenskum fyrirtækjum gert að kaupa sér heimildir. Í þessu plaggi er aðaláherslan lögð á það að íslenska ríkið beri ábyrgð á þessum losunarheimildum. Ég er þessu algjörlega ósammála. Ef erlendir aðilar eru hér með rekstur eins og álver eða einhverjir aðrir sem menga og falla undir ákvæðið 2013 eiga þeir að sjálfsögðu að vera á markaðnum og kaupa þetta, eins og verslun og viðskipti ganga fyrir sig, en ekki þannig að við göngum inn í þetta kerfi og þá geti allir komið hingað og mengað. Hvar eru varnirnar í heimaríkinu ef þetta á að vera svona?

Þetta er nokkuð sem er búið að semja um á grundvelli Evrópusamrunans, það er alveg ljóst. Ég gerði hálfgert grín að því að þær lykilaðgerðir sem eru lagðar hér til eru settar fram í tíu liðum. Í fyrsta lagi er þessi innleiðing, svo er kolefnisgjaldið og breytt kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti. Það kemur fyrst og fremst til út af því að ríkissjóður er tómur en ekki af umhyggju fyrir loftinu. Hér er talað um notkun ríkis og sveitarfélaga á sparneytnum og vistvænum ökutækjum. Við skulum sjá hvort sveitarfélögin hafi yfir höfuð efni á því, en að sjálfsögðu styð ég alla græna orku og vil eflingu hennar sem mesta. Við eigum mikla orku til að rafvæða hér flotann okkar ef við viljum og þá er það með þeim hætti líka.

Notkun lífeldsneytis á fiskiflotann og rafvæðing fiskimjölsverksmiðja er svo sem ágætismarkmið, en það væri gaman að heyra hvort yfir höfuð væri búið að kynna þetta fyrir atvinnulífinu. Það kostar atvinnulífið í landinu gríðarlega mikið að skipta út eldsneyti, taka upp þetta lífræna, hvað þá að rafvæða fiskimjölsverksmiðju, eins og lagt er til hér.

Ég lýk bráðum máli mínu, en ég hnaut hér um eitt atriði á bls. 28 í kaflanum „Aukin skógrækt og landgræðsla“. Mér finnst þetta stangast á við þær fréttir sem komu af því að hæstv. umhverfisráðherra ætlaði að skera upp herör og útrýma öllum skógum sem ekki væru leyfisskyldir. Allir útlendingar skyldu höggnir niður, þ.e. útlensk tré og útlenskar plöntur, en svo á skyndilega að auka hér skógrækt og landgræðslu til að draga úr mengun. Það er svo alveg stórkostlegt að sjá þetta komið hér inn, en held að hæstv. ráðherra verði aðeins að ákveða hvort hún ætli að fórna hér öllum skógum vegna þess að það eigi að endurheimta allt eins og það var árið 1100 eða hvort eigi að auka þetta til að geta dregið eitthvað úr þessari mengun.

Svo er það endurheimt votlendisins sem er algjört brotabrotabrot af því sem þetta getur orðið, og er raunverulega.

Þetta var það helsta, virðulegi forseti. Mín skoðun er klár, það eru mistök hjá ríkisstjórninni að berjast ekki með kjafti og klóm fyrir íslenska ákvæðinu. Oft var þörf en nú er nauðsyn á því að (Forseti hringir.) endurvekja atvinnulífið. Líklega verður það þó ekki á meðan þessi ríkisstjórn starfar þannig að ég verð að geyma þessi baráttumál mín þar til Framsóknarflokkurinn kemst í ríkisstjórn.