139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur, eins og ég gerði í andsvari áðan við hæstv. umhverfisráðherra, þakka fyrir þessa umræðu sem er búin að vera um margt fróðleg og það er að sjálfsögðu gott. Ég vil hefja ræðu mína á því að taka sérstaklega fram að það er sjálfsagt og gott að brýna okkur öll í þessum málaflokki og í þessum mikilvægu málum. Allar aðgerðir sem eru til þess fallnar að losa minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið og sérstaklega eins og hér hefur komið fram í samgöngugeiranum okkar, allar slíkar aðgerðir eru að sjálfsögðu til bóta og hið þarfasta mál sem ég geri auðvitað ekki lítið úr. Öll skynsemi er góð og þörf og það er skynsamlegt að halda áfram þeirri þróun sem hér er á ferðinni og hér hefur verið mikil á undanförnum árum.

Ég verð þó að segja að þegar kemur að heildarhagsmunum þjóðarinnar í loftslagsmálum tel ég að sé því miður rík ástæða til að vantreysta hinni rökrænu jafnaðarstjórn sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kallaði svo og, því miður, að vantreysta hæstv. umhverfisráðherra í þeim efnum líka vegna þess að umhverfisráðherra hefur beinlínis hafnað því að tryggja áfram íslenska ákvæðið svonefnda sem veitir stóriðju á Íslandi undanþágu frá Kyoto-bókuninni. Þessi íslenska undanþága var viðurkennd á sínum tíma á alþjóðavettvangi vegna sérstöðu íslensks þjóðarbúskapar og vegna þess að við notum hreina endurnýjanlega orku til stóriðju og við ræddum þetta aðeins áðan, þessi hnattrænu áhrif. Það er skoðun mín að þessari undanþágu verði að viðhalda þegar samið er um hagsmuni Íslands hvort heldur sem það verður gert á vettvangi Kyoto-bókunarinnar eða á evrópskum vettvangi vegna EES-samningsins.

Hagsmunir þjóðarinnar í þessu efni virðast hins vegar og því miður vera feimnismál hjá hæstv. umhverfisráðherra, sem lét t.d. hafa eftir sér í blaði fyrir leiðtogafundinn um loftslagsmál í Kaupmannahöfn haustið 2009, að Íslendingar hefðu ekki þörf fyrir það orðspor, eins og það var orðað, að vera það land sem óski eftir undanþágum frá reglum um losun gróðurhúsalofttegunda.

Kíkjum aðeins á hvað önnur ríki eru að gera, lítum til frænda okkar á Grænlandi. Grænlenska landsstjórnin setti fram markmið sín í loftslagsmálum fyrir Kaupmannahafnarfundinn 2009. Þar á meðal var að öll losun frá olíu- og gasvinnslu úr grænlenska landgrunninu í framtíðinni yrði undanþegin Kyoto-bókuninni sem og álframleiðsla sem stefnt er að á Grænlandi m.a. í samvinnu við Alcoa-fyrirtækið sem við þekkjum vel. Grænlendingar eru þannig að verða keppinautar okkar Íslendinga um erlent fjármagn til stóriðju. Það vekur mér áhyggjur þó að við deilum þeim kannski ekki, ég og hæstv. umhverfisráðherra. En málið er að grænlensk stjórnvöld skammast sín ekki fyrir að gæta þjóðarhagsmuna í þessum efnum.

Grænlendingar eru ekki fremur en við Íslendingar stóru fiskarnir í sjónum þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda og nota bene, við erum ekki eina þjóðin í heiminum sem fékk undanþágu frá Kyoto-bókuninni. Undanþága okkar á rætur í sérstöðu okkar og hefur þá sérstöðu að draga úr losun á heimsvísu eins og oft hefur verið bent á. En hvað með undanþágur annarra ríkja? Til dæmis felst hin stóra undanþága ESB í ártalinu 1990, sem Kyoto-bókunin leggur til grundvallar, ekki fyrir tilviljun heldur með sérstöku tilliti til hagsmuna iðnríkja. Um þetta leyti eða árið 1990 hrundi kommúnisminn eins og við munum og ESB erfði alla mengunina sem kommúnisminn skildi eftir sig í Mið- og Austur-Evrópu sem ekki var auðvelt að losa, en um þetta leyti var einnig að koma til stórfelld jarðgasvæðing í ýmsum ESB-ríkjum og jarðgas mengar miklu minna en olía og kol og þessi atriði hafa gert ESB kleift að minnka losun í samræmi við Kyoto.

Sérstaða Íslands virðist líka vera feimnismál hjá hæstv. umhverfisráðherra. Hún nefndi það í ræðu sinni áðan að mikið sé gert úr losun á mann hér á landi. Hún er allnokkur og það stafar auðvitað af því að íslensk þjóð er fámenn en hún framleiðir mikið. Á það er aldrei bent í þessum samningi og ég fór í andsvar við hæstv. umhverfisráðherra áðan til að spyrja einmitt um það af hverju ekki sé talað um það sem við leggjum til. Það er bara talað um þær skyldur sem við verðum að taka á okkur. Það er allt í lagi að benda á þær skyldur og ég er ekkert að veigra mér við því en mér finnst við hafa mjög margt til þessara mála að leggja með það sem við erum að gera og gera rétt og mér finnst mjög miður að á það skuli ekki vera bent. Þá er líka oft sleppt að geta þess að þegar losunin er skoðuð út frá þjóðarframleiðslu en ekki losun á mann er Ísland meðal þeirra landa í heiminum sem standa sig best og það stafar auðvitað af því að við notum mikið af hreinni endurnýjanlegri orku.

Þau fáu lönd sem standa sig betur en Ísland hvað varðar losun miðað við þjóðarframleiðslu gera það langflest vegna þess að þau nota mikið af kjarnorku, þar á meðal eru Svíþjóð og Frakkland þar sem um helmingur raforku verður til í kjarnorkuverum. Og það þarf ekki að taka fram hér að framtíðaruppbygging í þeim geira er í besta falli óráðin eftir hina hörmulegu atburði í Japan þar sem eins og allir vita kjarnorkuver skemmdust í jarðskjálftanum fyrir skömmu með hörmulegum afleiðingum sem eru algerlega til þess fallnar að setja þá framtíðaruppbyggingu í óvissu. Mér finnst inngangurinn að þessari skýrslu einkennast einmitt af þessari feimni við sérstöðu Íslands og ekki bara við sérstöðuna heldur einnig feimni við að tala um þessa frábæru frammistöðu Íslendinga sem stafar reyndar ekki bara af orkunni okkar heldur hefur okkur tekist líka að minnka losun vegna fiskveiða og álframleiðslu. Við höfum verið að gera betur í þeim efnum líka en það er eins og ekki sé tekið til þess.

Langmestur hluti af aukningu á losun á Íslandi undanfarið á rætur að rekja til álveranna sem eru hins vegar hagkvæm fyrir umhverfismál á heimsvísu, eins og ég benti á áðan, vegna hreinu orkunnar sem er notuð við framleiðsluna. Þessu á að hampa en það er ekki gert. Áliðnaðurinn á líka mest af þeirri aukningu á losun á Íslandi á næstu árum sem spár gera ráð fyrir ef þær framkvæmdir, sem sum okkar eru talsmenn fyrir, verða að veruleika.

Fyrir nokkrum árum bentu Samtök atvinnulífsins á þá staðreynd að Íslendingar eru í þeirri sérstöku stöðu að ef öll efnahagsstarfsemi legðist af hér á landi væru allar líkur á því að útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum ykist þar sem gera mætti ráð fyrir að stór hluti ál- og járnblendiframleiðslu landsins yrði framleiddur annars staðar með orku frá jarðefnaeldsneyti. Það yrði þá sérstakt framlag okkar Íslendinga til minnkunar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og það sér hver heilvita maður að það er náttúrlega ekkert sérstaklega gott í hnattrænu samhengi. En þannig mætti segja miðað við þessa fullyrðingu að Ísland væri nú þegar það sem kallað er kolefnishlutlaust land, sem ég tek eftir í skýrslunni að stefnt skuli að, og það er afar ólíklegt að unnt sé að finna mörg önnur ríki sem þetta getur gilt um.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum fara fram á það við hæstv. ríkisstjórn og hæstv. umhverfisráðherra sérstaklega að íslenskum hagsmunum í loftslagsmálum verði haldið á lofti og þeim staðreyndum sem lúta að sérstöðu okkar og frábærri frammistöðu á þessu sviði. Meira bið ég ekki um, virðulegur forseti.