139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég dreg ekkert í efa söguskýringu hennar sem er rétt eftir því sem ég best veit. En markmiðið — það er allt satt og rétt að það er ekki gott að vera með tvöfalt kerfi og við lögðum saman í þann leiðangur að reyna að gera kerfið þannig að það kæmi íslensku samfélagi og íslensku atvinnulífi sem best og einmitt að setja ekki einhverjar óþarfaumhverfisreglur hér á landi sem væru ekki til annars staðar. Það breytir samt ekki því, og það var það sem ég fjallaði um í ræðu minni, að ef við höldum ekki sjálf til haga hagsmunum okkar og berjumst fyrir þeim og höldum sérstöðu okkar á lofti þá gerir það enginn annar. Við erum ekki ein á báti í því að berjast fyrir hagsmunum okkar, okkur ber skylda til að gera það.

Ég var að vekja athygli á því að mér finnst vera of mikil feimni og hræðsla við einhvern hugsanlegan orðsporsálitshnekki. Ég held, og það er punkturinn, að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af orðspori Íslands þegar að þessu kemur, jafnvel þó að við berjumst fyrir hagsmunum okkar og sérstöðu. Ég tel að framlag okkar til loftslagsmála sé gríðarlegt og ef við trúum því ekki sjálf og berjumst ekki fyrir því er ekki nokkur leið að nokkur annar geri það fyrir okkur. Við eigum ekki bara að tala um skyldurnar heldur líka um framlag okkar og sérstöðu í þessum málum.