139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:31]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir afar góða og yfirgripsmikla umræðu um skýrslu um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem megináhersla er lögð á möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er markmið skýrslunnar.

Hér hafa komið fram margar afar góðar ábendingar en mig langar aðeins að staldra við þar sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir sleppti í sambandi við sameiginlega hagsmuni heildarinnar og Íslands. Þar liggur hundurinn einmitt grafinn og það er þess vegna sem fulltrúar yfir 190 landa heims koma saman, til að gæta að því að hinir sameiginlegu hagsmunir mannkyns séu þeir meginhagsmunir sem þar eru undir. Að sumu leyti erum við komin að því að verða að horfa til hagsmuna til lengri tíma en við erum vön að gera í stjórnmálum. Hins vegar fer ágætlega saman að varðveita hagsmuni Íslands og heildarinnar með því að tryggja að votlendið verði raunveruleg loftslagsaðgerð.

Vegna umræðunnar hér finnst mér verra, þó að gerðar hafi verið nokkrar tilraunir til að leiðrétta það og það sagt í fullri einlægni, að þess skilnings virðist gæta sums staðar enn þá að með því að óska ekki eftir undanþágu sé Ísland að tapa verðmætum í einhverjum skilningi. Það er ekki svo. Hið íslenska ákvæði rennur út í árslok 2012, alveg sama hvað við gerum. Það rennur út við lok skuldbindingartímabils Kyoto-bókunarinnar. Þannig er það.

Við undirgöngumst viðskiptakerfi með losunarheimildir 2012 og 2013 vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þessir tveir þættir blasa við. Öll þessi vinna hefur verið unnin í góðu samstarfi við atvinnulífið og erum við að koma því þannig fyrir að atvinnulífið, þ.e. íslenska stóriðjan alveg burt séð frá öllum okkar skoðunum á því hversu hagfelld hún sé atvinnuuppbyggingu á Íslandi o.s.frv., sitji við sama borð og stóriðja í Evrópu og njóti jafnræðis í aðgengi að losunarheimildum á við stóriðju í Evrópu. Með það kynnu einhverjir stóriðjusinnar að vera býsna ánægðir.

Ég vil líka aðeins taka á punktum sem komu fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar sem mér fannst afar umhugsunarverðir og sú spurning hver aðkoma Alþingis að stefnumótun eigi að vera í þessum málum. Ég held að við þurfum að staldra við þær vangaveltur. Er aðkoma Alþingis fullnægjandi? Mér finnst það gild spurning. Ég hef verið að velta fyrir mér hvort við ættum ekki til viðbótar við innleiðingu á viðskiptakerfi með losunarheimildir, sem er nokkuð tæknileg löggjöf og varðar aðkomu okkar að þessu tiltekna kerfi, að búa við heildarlöggjöf í loftslagsmálum rétt eins og heildarlöggjöf í mengunarmálum, náttúruverndarmálum, skipulagsmálum o.s.frv. Í slíkri löggjöf væri áskilið á hvern hátt stjórnvöld settu fram aðgerðaáætlanir og jafnframt hvernig þau ættu að fylgja þeim eftir og með hvaða hætti eftirlitsskyldu Alþingis væri best fullnægt. Ég held að þessi staða endurspegli þá staðreynd að málaflokkurinn er að nema land. Hann er að mörgu leyti nýr og þess vegna höfum við ekki mótað nægilega skýrt hvernig þessum þáttum er best fyrir komið.

Ég ákvað upp á mitt einsdæmi að fara þess á leit við Alþingi að setja þessa skýrslu á dagskrá. Það er ágætt að geta þess, þar sem hér hefur verið sagt að skýrslan hafi verið til mánuðum saman en ekki verið rædd á þinginu, að ég óskaði fyrst eftir því í desember að málið kæmi á dagskrá þingsins. Það er nú á glöðum marsdegi sem þessi skýrsla fær rými á dagskrá hv. Alþingis.

Það er mjög einfalt mál að setja fram áætlanir. Það er einfalt mál að setja fram markmið og segja: Við ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda — og láta taka af sér myndir, heilsa forsetum og vera með fána og þjóðsöngva o.s.frv. Það er enginn vandi. Vandinn er að setja fram aðgerðaáætlun sem er raunsæ og þess vegna hef ég lagt áherslu á að þessi aðgerðaáætlun verði sett saman í breiðu samráði, ekki bara þeirra ráðuneyta sem um ræðir heldur líka við Samband sveitarfélaga og atvinnulífsins og fleiri aðila sem um málin véla. Það hefur ekkert upp á sig að við skrifum eitthvað á blað um breytingu á eldsneyti á fiskiskipaflotanum ef við höfum ekki rætt það við þá aðila sem geta því ráðið. Þess vegna — þar sem þetta plagg er komið, ekki til ára sinna heldur er það ekki alveg glænýtt úr prentaranum — er ágætt að geta þess að vinnuhópur hefur verið settur af stað og meginviðfangsefni hans er að setja upp tímasetningar, mælanleg markmið, kvarða o.s.frv. þannig að við fáum þau amboð í hendur að við séum í færum til að meta framgang áætlunarinnar. Það er nokkuð sem ekki er hægt að líta fram hjá.

Losunarmálin eru dálítið kúnstug vegna þess sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir. Þessi málaflokkur er einhvern veginn þeirrar gerðar að hann er málaflokkur langra áætlana og langtímasýnar og þess vegna er hann sjaldnast málaflokkur dagsins og þingsalur ekki þéttsetinn akkúrat þegar hann er til umræðu. Losunarmál varða hvern einasta kima daglegs lífs og falla undir menntamál, menningarmál, samgöngumál, neytendamál, iðnaðarmál, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Þau eru í raun og veru allir málaflokkar og hvert einasta skipti, virðulegur forseti, sem við tökum ákvörðun um að gera A eða B tökum við ákvörðun sem varðar loftslag, það er svo einfalt, hvort sem við ákveðum hvað við kaupum í matinn eða hvernig við leggjum á borðið eða hvernig við förum á milli húsa eða hvernig við notum pappírinn okkar eða hvernig föt við kaupum eða hvað það er sem við gerum, í hvert einasta skipti sem við aðhöfumst þá skiptir það máli fyrir loftslagið. Þess vegna ætti umræðan um loftslagsmál og losunarmál að vera heitasta umræða allra tíma.

Ég hef setið eina loftslagsráðstefnu, gerði það í Kaupmannahöfn á sínum tíma. Það var mikil reynsla og upplifun. Fyrst og fremst finnur maður að gríðarlega miklir hagsmunir eru í húfi, líka hagsmunir sem varða ýmsa þætti sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom inn á eins og valdatogstreitu, flæði fjármagns milli norðurs og suðurs í heiminum o.s.frv. En í grunninn blasir við að þetta er eitt stærsta viðfangsefni mannkynsins og á ögurstundu finnur maður fyrir lotningu í salnum þegar allir sitja með merki sinnar þjóðar fyrir framan borðið sitt og geta ekki annað en horfst í augu við að verkefnið er gríðarlega krefjandi og snúið og kannski eitt það flóknasta á okkar tímum.

Ég leyfi mér að vera svolítið hátíðleg og segja að það að ræða um þessi mál og komast að niðurstöðu eða einhverri lausn krefst allrar okkar visku, alls okkar vits, allrar okkar þekkingar, færni og manngæsku. Það er ekki akkúrat það er efst á blaði frá degi til dags þegar við erum í stjórnmálum og kannski ekki endilega í stjórnmálum á Íslandi í miðju hruni eða eftirköstum þess. Mér finnst afar mikilvægt að við sýnum auðmýkt frammi fyrir þessu verkefni. Þegar við sjáum fulltrúa frá öllum löndum heims frá hægri stjórnum, vinstri stjórnum, miðjustjórnum og alls konar stjórnum merkjum við varla hvernig ríkisstjórnir þeirra eru saman settar þegar þeir koma fram í þessu stóra og krefjandi verkefni mannkynsins.

Ég þakka að lokum kærlega, virðulegur forseti, fyrir þessa fínu umræðu og heiti því að ég mun hugsa það mjög vel með hvaða hætti þingið getur komið öflugar að stefnumótun um loftslagsmál.