139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú nálgumst við viðfangsefnið rétt, að mínu mati, með svari ráðherrans. Það er alveg hárrétt að hinar vestrænu þjóðir vaða á skítugum skónum yfir þróunarlöndin og ekki bara á þessu sviði. Það sem skiptir enn þá meira máli í heiminum er aðgangur að hreinu vatni, sem dæmi. Það gengur ekki að bera mikla virðingu fyrir því og vera full lotningar á meðan ekki næst samkomulag.

Varðandi loftslagsmálin sem eru til umræðu eru Bandaríkin ófáanleg til að ganga að einhverju samkomulagi, Kína vill það ekki og ekki Indland. Þessi stóru spúandi ríki heimsins ætla ekki að taka þátt. Þess vegna segi ég að á meðan þetta er nánast eingöngu bundið við Evrópu og Ástralíu, Ástralía er að mig minnir stærra landsvæði en Evrópa, þá er þetta innanhússkróníka, innanhússáhugamál, fyrir kratískar stofnanir til að hafa nógu marga embættismenn í vinnu við að reikna út losunarheimildir og nógu marga embættismenn til að ferðast á milli landa og ná samningum. Við þekkjum alveg þetta ferli. Þess vegna fór alveg fram hjá mér glæsibragurinn og ævintýraljóminn yfir Al Gore þegar hann fór um heiminn og sagði: Við þurfum að huga að því að heimurinn er að farast vegna þess að það er svo mikil mengun og við verðum að huga að loftslagsmengun og öðru. Ég hreifst með á sínum tíma en eftir að ég fór að skoða þessi mál og kynna mér þau þá snúast þau fyrst og fremst um að búa til viðskiptakerfi sem hægt er að veðsetja upp í rjáfur. Þetta snýst ekki um hlutabréf, nei, heldur réttinn til að menga loftið sem við öndum að okkur.