139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans. Það vakti athygli mína að hann gaf upp í ræðu sinni að hann ætlaði ekki að styðja þetta mál.

Mig langar líka til að vekja athygli á að hann bendir á að úrskurður Hæstaréttar standi og öllum beri að fara eftir úrskurðum og dómum Hæstaréttar. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hafi rekið augun í það sem kemur fram á bls. 2 í nefndaráliti 2. minni hluta sem ég skrifa undir þar sem talað er um hvernig staðið var að talningunni. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Sumir innsláttaraðilar stunduðu „skapandi“ úrlestur, giskuðu á tölu, og breyttu svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta talan var „misskráð“ hjá kjósanda og tóku innsláttaraðilar sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu. Þess ber að geta að kerfið bauð upp á öllum tölum yrði breytt svo tæknilega séð gátu innsláttaraðilar skráð þá tölu sem þeim hugnaðist.“

Þetta lá ekki fyrir og kom ekki inn í kæru til Hæstaréttar heldur kom inn á borð allsherjarnefndar á síðustu dögum þegar við ræddum þessi mál. Þetta er mjög alvarlegt, þetta kemur frá yfirkjörstjórnarmanni í Reykjavíkurkjördæmi suður inn í allsherjarnefnd. Ég verð að segja að mér var mjög brugðið þegar ég sá þetta. Það er beinlínis verið að segja okkur að niðurstöðum kosninganna hafi verið breytt á meðan talningu stóð og þetta skýrir kannski þá 10 þúsund atkvæðaseðla sem voru ótaldir á mánudeginum vegna þess að vélin gat ekki tekið þá og þá hefur þessu verið breytt í samræmi við það því þegar upp var staðið voru ógild atkvæði mjög fá.

Hvað finnst þingmanninum um þetta? Finnst honum ekki einkennilegt í ljósi þessa að samt sem áður sé hreinlega búið að velja þessa 25 aðila — samúð mín er hjá þeim — til að sitja í stjórnlagaráði? Augljóst er að talningin hefur verið mjög gölluð.