139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skal upplýst hér að margir hafa haft samband við mig eftir að þetta mál komst á dagskrá þingsins, þeir sem hlutu kosningu á stjórnlagaþingið, sem síðar var dæmd ógild, og einnig kjósendur. Einn kjósandi hringdi í mig og sagði: Ég tilheyri þeim 63% af þjóðinni sem ekki kaus. Ég var aldrei spurður að því hvort ég vildi stjórnlagaþing. Þess vegna fór ég ekki og kaus. Það eru því ýmis sjónarmið uppi.

Þingmaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson fór yfir það að allsherjarnefnd hefði lent í miklu tímahraki með málið. Ég bið hann um að svara því hvers vegna það er, hvað er það sem hangir á til 1. júní árið 2011? Hvers vegna er málið komið í tímaþröng? Bara til að rifja það upp frá því í síðustu viku.

Svo langar mig til að spyrja hann í ljósi þess að fyrir þinginu liggur frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis sem snýr að því að hér séu sett vönduð lög, lagasetning verði til fyrirmyndar og þingmenn hafi aðgang að prófessorum á réttarsviðum þeim sem til umfjöllunar eru í frumvörpum, svo og með vísan til skýrslu þingmannanefndar Alþingis sem hv. þm. Atli Gíslason fór fyrir. Finnst hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þetta vera vönduð lagasetning — við erum reyndar að tala um þingsályktunartillögu — en er þetta mál sem á að vera á borði þingmanna? Deilir þingmaðurinn ekki þeirri skoðun minni að raunverulega eru flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu að taka Alþingi sem stofnun nokkuð niður með því að fara svo augljóslega móti úrskurði Hæstaréttar og fara svo augljóslega á móti þrígreiningu ríkisvaldsins sem felst í 2. gr. stjórnarskrárinnar? Er málið yfir höfuð þingtækt að mati þingmannsins?