139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg hreint dæmalaust að stjórnarskrárgerðin frá þessu stjórnlagaráði skuli hanga á einum húsaleigusamningi sem á að renna út 1. júní 2011. Það er til skammar og þetta eru svo mikil handarbakavinnubrögð. Að mínu mati er þetta til þess að bjarga þeim kostnaði sem nú þegar er fallinn á með því að bæta örlítið meiri kostnaði við til að hægt sé að réttlæta það í ríkisreikningi.

Verði hætt við núna er áfallinn kostnaður við stjórnlagaþingið, sem átti að verða með kosningunum og þeim kostnaði við að ráða starfsfólk og annað, nú þegar orðinn 500 milljónir. Hálfur milljarður er þegar fallinn á þessa hugmynd hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég vil minna á að kvennadeild St. Jósefsspítala var lokað, rekstrarkostnaðurinn þar á ári var 300 milljónir. Það er helmingurinn af umræddri upphæð, heilsa 1.200 kvenna á ári. Því var hent út um gluggann með þessum upphæðum. Hálfur milljarður er nú þegar farinn í þetta.

Mig langar að spyrja þingmanninn aftur, af því að hann hafði ekki ráðrúm eða tíma til að svara þeirri spurningu, hvort þetta væri í anda þeirrar skýrslu sem þingmannanefnd Alþingis komst að niðurstöðu um, að hér ætti að stórbæta alla lagasetningu, stórbæta alla vinnu og umfram allt að hafa vinnubrögðin vönduð og fagleg og þá líka með vísan í frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis. Og hvort það er mat þingmannsins af eða á, þar sem hann er nú lögfræðimenntaður: Telur hann að þessi þingsályktunartillaga sé þingtæk vegna árekstrar hennar við úrskurð Hæstaréttar?