139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara spurningu hv. þingmanns um fagleg vinnubrögð og það hvernig tillagan og tilurð hennar er í tengslum við það sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis leyfi ég mér að efast um að þeir sem flytja þessa tillögu hafi lesið þá skýrslu. Vegna þess að tillagan uppfyllir ekkert af þeim sjónarmiðum sem þar koma fram um fagleg og vönduð vinnubrögð. Þess vegna furða ég mig á því að t.d. hv. þm. Atli Gíslason, sem var formaður þingmannanefndarinnar sem skilaði hér mikilli skýrslu um önnur, betri og bætt vinnubrögð, skuli skrifa undir tillögu meiri hluta nefndarinnar þegar það liggur fyrir að allir þeir prófessorar, sem þó komust að á fundum allsherjarnefndar, hafa fundið þessari tillögu allt til foráttu, allt. Það þýðir ekki að skrifa langar skýrslur um það að hér eigi menn að vanda vinnubrögð sín, leita til sérfræðinga og setja sér einhver fagleg og merkileg viðmið í fínni skýrslu og flagga henni með tölunni 63:0 og segja að allir hafi verið sammála um að haga málum þannig og fara síðan ekkert eftir því í kjölfarið þegar tillögur eru lagðar fram. Ég tala nú ekki um í svona mikilvægu máli eins og þessu. Í mínum huga uppfyllir tillagan engan veginn þær kröfur sem fram koma í þeirri skýrslu.

Það er síðan alveg rétt hjá hv. þingmanni að kostnaðurinn við þetta mál allt saman er orðinn óbærilegur, hrikalegur og alvarlegur (Forseti hringir.) í samanburði við að í dag er verið að loka (Forseti hringir.) heilu deildunum á Landspítala sem hægt hefði verið að nýta þessa fjármuni í.