139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um að þessi tillaga sé skynsamleg. Ég hef efasemdir um að þeir sem flytja hana eða styðja hana séu meðvitaðir um meginregluna um þrískiptingu ríkisvaldsins, en ég er sammála hv. þingmanni um að tillagan er prófsteinn á okkur sem hér sitjum. Hún er prófsteinn á okkur varðandi hvort við ætlum að virða niðurstöður æðsta dómstóls í landinu, Hæstaréttar, eða ekki.

Hv. þingmaður segir að virðingin sem hann ber fyrir niðurstöðunni felist í því að það verði ekki stjórnlagaþing. En það er enginn munur á stjórnlagaþingi og stjórnlagaráði annað en nafnið og hver skipar fulltrúana á stjórnlagaráðið. Þetta er sama fólkið, á sömu laununum, á sama stað, sem á að vinna sama verkið. Það er ekki virðing fyrir Hæstarétti Íslands, enda tekur enginn undir það sem um málið fjalla (Forseti hringir.) að með tillögunni sé verið að sýna réttinum (Forseti hringir.) virðingu, heldur þvert á móti lýsa menn yfir að í henni felist vanvirðing. (Forseti hringir.)