139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði að ferillinn allur að því að breyta stjórnarskránni sem við ákváðum fyrir ári síðan mundi verða prófsteinn á okkur og við erum í miðju kafi að takast á við það verkefni.

Mig langar að endurtaka það sem ég sagði. Ég sagði að virðing fyrir niðurstöðu Hæstaréttar fælist í því að viðkomandi aðilar sem þarna voru kosnir fái ekki kjörbréf. Þeir eru ekki þjóðkjörnir. Mér finnst það mjög bagalegt. Mér finnst það ömurlegt. Það felst í niðurstöðu Hæstaréttar. En það lýsir bara staðnum sem við erum á. Þarna eru 25 einstaklingar sem voru kosnir, þeir fá ekki kjörbréf, þeir eru ekki þjóðkjörnir. Nú þurfum við að ákveða hvernig við eigum að halda áfram, við erum á þeim tímapunkti. Við höfum vald á þessari samkomu til að ákveða hvað við gerum.

Þá langar mig að spyrja hæstv. fyrirspyrjanda: Á hvaða hátt felur sú leið sem hann leggur til, að það verði einfaldlega hætt við stjórnlagaþingið af þessu tilefni, (Forseti hringir.) í sér þá miklu virðingu (Forseti hringir.) fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins (Forseti hringir.) sem honum er svo umhugað um? (Forseti hringir.)