139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð hefur ekkert með þrískiptingu ríkisvaldsins að gera vegna þess að það hefur aldrei staðið til að stjórnlagaþingið eða stjórnlagaráðið fari með ríkisvald nema í upphafi þegar Framsóknarflokkurinn lagði til bindandi stjórnlagaþing. Hins vegar er það þing ekki lengur til umræðu. Hv. þingmaður hlýtur sem fulltrúi Framsóknarflokksins að vera ósáttur við það litla sem eftir er af upphaflegri tillögu Framsóknarflokksins um bindandi stjórnlagaþing. Ég var aldrei stuðningsmaður þeirrar tillögu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga eigi, eins og gert er ráð fyrir í stjórnarskrá, að standa að breytingum á stjórnarskránni. En ég hefði talið að ef menn hefðu á annað borð viljað fara þá leið að fela einhverjum öðrum en þinginu þær breytingar, og þá stjórnlagaþingi, hefðum við átt að kjósa aftur. Það hefði verið miklu rökréttari niðurstaða (Forseti hringir.) í ljósi þeirrar stöðu sem upp kom.