139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gat engan veginn útskýrt í ræðuhöldum sínum um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins, sem ég ber vissulega virðingu fyrir og er meðvitaður um mikilvægi hennar, þ.e. á hvaða hátt það er virðing fyrir ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosninganna að hætta einfaldlega við þingið. Hann segir síðan í svari sínu að rökréttast væri að kjósa aftur. Þá finnst mér svolítið bagalegt, vegna þess að honum er mjög umhugað um virðingu fyrir ákvörðun Hæstaréttar, af hverju það er ekki inntakið í málflutningi hans að það eigi að kjósa aftur ef það er rökréttasta niðurstaðan. (SKK: Af því ég er á móti stjórnlagaþingi.) Þá komum við einmitt að kjarna málsins, við erum á nákvæmlega sama stað með stjórnarskrárbreytingarnar (Forseti hringir.) og alltaf: Sjálfstæðisflokkurinn er á móti.