139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg ósammála hv. þingmanni um það sem hann fjallaði hérna um en engu að síður flutti hann að mörgu leyti efnisríka ræðu. Hann fór hins vegar í gamalt mælskubragð sem felur það í sér að búa sér til einhvers konar óvini, koma síðan í líki riddara á hvítum hesti og ráðast á þann ímyndaða óvin. Ímyndaði óvinurinn í máli hv. þingmanns var sá að það væri Sjálfstæðisflokkurinn sem væri á móti því að endurskoða stjórnarskrána. Hv. þingmaður sagði eitthvað á þá leið áðan að þetta væri klassísk deila þeirra sem vilja og vilja ekki endurskoða stjórnarskrána. Það er algjörlega rangt, ef hv. þingmaður á við það, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti því að endurskoða stjórnarskrána. Það kann að vera að okkur greini á um einhver efnisatriði, ég veit það ekki, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ævinlega lýst sig reiðubúinn til að taka þátt í endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Hann hefur gert það af heilum hug. Það hefur oft leitt til niðurstöðu. Það munaði ekki mjög miklu árið 2007, þá lagðist Samfylkingin hins vegar þversum í málinu, kom í veg fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Það sem við ræðum núna fjallar um þetta form. Það (Forseti hringir.) hefst með þessum miklu átökum, í fyrsta skipti (Forseti hringir.) átökum um formið. En ég vísa því algjörlega á bug að (Forseti hringir.) þetta sé deila (Forseti hringir.) milli þeirra sem vilja (Forseti hringir.) og hinna sem ekki vilja endurskoða stjórnarskrána.